Mynd eftir Cardz Aves
Innlendar fréttir

Blak veisla á Ísafirði

Mikið var um að vera á Ísafirði um helgina þar sem spilaðir voru alls 3 leikir, karlaliðið tók þá á móti Hamri og Þrótti Reykjavík á meðan kennalið Vestra sem spilar í 1.deild spilaði hörkuleik við Álftanes.

Vestri – Hamar 

Snemma á laugardag tók ungt lið Vestra á móti deildarmeisturum síðasta tímabils frá Hveragerði. 

Fyrsta hrina byrjaði jöfn og spennandi og stóðu leikar í 7-7, en eftir það skoruðu gestirnir 7 stig á móti 1 og komu sér í þægilega stöðu í 8-14. Eftir það var ekki aftur snúið og kláruðu gestirnir hrinuna 16-25.

Í annari hrinu bættu gestirnir heldur í og náðu snemma góðu forskoti, komu þeir sér þá í 3-8. Vestra menn gáfust þó ekki upp og náðu einhvað að laga stöðuna og halda í við gestina þar til staðan var 11-14, þá spýttu Hamarsmenn í lófana og skoruðu næstu 5 stig og var þá staðan orðin 12-19. Eftir það skiptust lið á stigum en á endanum unnu gestirnir aðra hrinu 18-25.

Þriðja hrina byrjaði á svipaðan máta, þrátt fyrir leikhlé heimamanna þá var lítið sem stoppaði gestina og voru þeir fljótt komnir í þægilega stöðu í 1-9. Gestirnir gera þá breytingar á liði sínu þegar leikar standa 6-14 í von um að sigla sigrinum heim. En Vestramenn voru ekki hættir og skora 13 stig á móti 2 og leiða þeir þá hrinuna óvænt 19-17. Eftir það breyta Hamarsmenn liðinu sínu til baka sem virðist hafa jákvæð áhrif því leikar jafnast á ný í 22-22. Eftir það skiptast lið á stigum og þurfti upphækkun til að klára hrinuna. En að lokum vinnur Hamar hrinuna 24-26 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæsti leikmaður Hamars var Tomek Leik með 22 stig og eftir honum var Kristján Valdimarsson með 14 stig 

Stigahæðstur heimamanna var Adria Capdevilla með 18 stig og þar á eftir honum ungstyrnið Pétur Örn með 6 stig.

Sunnudagurinn

Vestri – Álftanes 1.deild kvenna

Í fyrsta leik dagsins og fyrsta leik kvennaliðs Vestra á tímabilinu, tóku heimakonur á móti Álftanesi og settu þær tóninn um hvað koma skal með hörku 5 hrinu leik. 

Í fyrstu hrinu byrjuðu gestirnir ágætlega en heima konur jafna í stöðunni 8-8 og tóku í framhaldinu öll völd á vellinum og unnu þær hrinuna þægilega 25-14

Önnur hrina byrjaði svipað og sú fyrsta, gestirnir komust í 9-3 en heimakonur ná að jafna í 10-10.  En þá snerist leikurinn alveg á hinn vegin og voru það gestirnir sem unnu örugglega 14-25

Þriðja hrina var aðeins jafnari en byrjar svipað og hinar fyrri, gestirnir komust í 7-3 og heimakonur jafna í 8-8.  Að lokum stungu heima konur af eftir að hafa tekið átta stig í röð um miðja hrinu og unnu hrinuna 25-18

Fjórða hrina var jöfn alveg fram að síðasta stigi. Skiptust lið á að skora alveg þar til staðan var 24-22 fyrir Vesta. Hingað og ekki lengra sögðu gestirnir, tóku sig á og skoruðu næstu 4 stig og unnu þar hrinuna 24-26

Í oddahrinu héldu lið áfram að skipta með sér stigum og var hún jöfn alveg til loka. Eftir upphækkun sigruðu gestirnir 14-16 og tók Álftanes þá 2 stig með sér heim. 

Vestri – Þróttur Reykjavík 

Vestri tók á móti nýliðum Þrótti Reykjavík í seinni leik dagsins á Torfnesi. Þróttarar mættu grimmir til leiks og leiddu þeir fyrstu hrinu lengi og komu sér í kjörstöðu til að vinna hrinuna þegar staðan var 13-20. En þarna breyttist einhvað, hvort að gestirnir hafi misst einbeitninguna eða Vestramenn fundu sína, því heimamenn tóku sig á og skoruðu næstu 10 stig og leiddu skyndilega hrinuna 23-20. Þróttarar áttu engin svör og kláruðu heimamenn fyrstu hrinu 25-21.

Önnur hrina var jöfn og spennandi og víst að bæði lið ætluðu sér sigur. 10-10 var staðan í byrjun hrinunnar, seinna meir var staðan 22-22. Hvorugt lið ætlaði að gefa undan. En að lokum virtust heimamenn sterkari og unnu aðra hrinu með minnsta mun 25-23.

Gestirnir mættu þó ákveðnari í þriðju hrinu og gáfu ekkert eftir. Komust þeir í þægilega stöðu og um miðja hrinu var staðan orðin 7-15 fyrir Þrótturum. Heimamenn höfðu lítið af svörum og sigldu gestirnir þriðju hrinu í höfn með 16-25 sigri. 

Í byrjun fjórðu hrinu stefndi allt í þriggja stiga sigur heimamanna þar sem þeir leiddu 7-0 í byrjun hrinu. En hægt og rólega byrjuðu gestirnir að saxa á forystu heimamanna og um miðja hrinu var staðan orðin 15-13. Skiptust lið á að taka nokkur stig í einu en þegar staðan var 20-18 fyrir heimamönnum spýttu gestirnir í lófana og tóku 7 stig á móti 2 og unnu þá fjórðu hrinu 22-25 og var þá oddahrina staðreyndin á þessum langa degi á Ísafirði. 

Oddahrina virtist ætla að falla með gestunum þar sem þeir tóku snemma forystu á hrinunni með sex stigum á móti tveim. Þá byrjaði blóðið að renna hraðar hjá heimamönnum og þegar skipt var um vallarhelminga var staðan 8-6 fyrir Vestra. Skiptust liðin svo á stigum þar til staðan var 11-11.  Þá gerðu Vestramenn lítið fyrir sér og tóku næstu 4 stig og þar með hrinuna 15-11. 

Tvö stig í hús hjá heimamönnum en gestirnir þurftu að sætta sig við eitt stig eftir æsispennandi leik. 

Ekki lá fyrir tölfræði fyrir leikinn þegar fréttin var skrifuð.

– Myndir eftir Cardz Aves

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *