Innlendar fréttir

Er ísinn að bráðna í Hveragerði?

HK tóku á móti toppliði Hamars í Digranesi í kvöld. Heimamenn byrjuðu leikinn heldur betur af krafti með mikilli baráttu og góðum liðsanda. Þeir náðu fljótt tökum á hrinnunni og náðu upp miklu forskoti. Hamarsmenn náðu þó að saxa aðeins á forskotið en það dugði ekki til og vann HK hrinuna 25-18.

Önnur hrina spilaðist mjög svipað og sú fyrsta þar sem HK hafði yfirhöndina nær allan tíman og unnu hrinuna nokkuð örugglega 25-17. Þá voru Hamarsmenn komnir með bakið upp við vegg og nokkuð ljóst að þeir þurftu að fara að setja í næsta gír ef þeir vildu næla sér í stig úr leiknum.

Gestirnir byrjuðu betur í þriðju hrinu en heimamenn voru ekki lengi að jafna leikinn á ný og skiptust þá bæði lið á að leiða leikinn. Um miðja hrinu fóru heimamenn að dragast framúr og í stöðunni 15-12, HK í vil, tók Hamar leikhlé í von um að stoppa skriðið sem HK voru komnir á. Það dugði þó ekki til og héldu heimamenn áfram sama dampi og unnu hrinuna að lokum 25-19 og þar með leikinn nokkuð þæginlega 3-0.

HK unnu þar með fimmta leikinn sinn í röð. Hamar aftur á móti eru, með þessum leik, búnir að tapa síðustu þremur leikjum sem þeir hafa spilað og gerir það að verkum að KA eru jafnir þeim í stigum með einn leik til góða og tróna því á toppi deildarinnar, í bili.

Stigaskorið úr leiknum er ekki vitað en fréttin verður uppfærð seinna.