Erlendar fréttir

Habo Wolley mættu ríkjandi sænsku meisturunum

Laugardaginn 12. október fóru Habo Wolley þar sem að hann Hafsteinn Már spilar í heimsókn til Hylte Halmstad sem eru ríkjandi Sænskir meistarar.

Habo Wolley komu sterkir inn í leikinn og var fyrsta hrina nokkuð jöfn. Habo Wolley voru sterkari og sigruðu fyrstu hrinu 19-25.

Habo Wolley byrjuðu aðra hrinuna að krafti og komu sér í 4-10 forsystu. Habo Wolley voru í stuði og héldu áfram að leiða hrinuna 9-16. Hyte Halmstad náðu að halda sér inni í leiknum en Habo Wolley voru sterkari og leiddu hrinuna 15-20. Hylte Halmstad settu í annan gír og minkuðu muninn í 20-21 og jöfnuðu gestina í stöðunni 22-22. Eftir það var hrinan æsispennandi og lokuðu Habo Wolley hrinunni 24-26.

Hylte Halmstad tóku sig saman og komu sterkari inn í þriðju hrinu og náðu 10-4 og 15-8 forystu. Hylte Halmstad voru í góðum gír og sigruðu hrinuna sannfærandi 25-13.

Fjórða hrina byrjaði jöfn en um miðja hrinu gáfu heimamenn í og komu sér í 17-10 forystu. Habo Wolley náðu hægt og rólega að minka muninn en ekki dugði það til og sigruðu Hylte Halmstad hrinuna 25-21 og knúðu þar með fram oddahrinu.

Fimmta hrina byrjaði jöfn þar sem að liðin skiptust á því að skora. Hylte náðu síðan þriggja stiga forskoti og fengu snúninginn í stöðunni 8-5. Eftir það skiptust liðin á því að skora en héldu Hylte Halmstad þó alltaf smá forystu. Undir lok hrinunnar gáfu Hylte Halmstad í og lokuðu hrinunni 15-11 og sigruðu þar með leikinn 3-2.

Næsti leikur Habo Wolley er laugardaginn 19. október þar sem að þeir mæta Lund.