Innlendar fréttir

HK konur komnar áfram í Kjörísbikarnum

HK konur tóku á móti sterku liði Völsungs í 8 liða úrslitum í Kjörísbikar kvenna í kvöld. HK spilaði síðast 15. janúar þar sem þær sigruðu nokkuð örugglega gegn Álftanesi en Völsungur tók síðast á móti KA fyrir viku síðan þar sem þær sigruðu toppliðið 3-0.

Í fyrstu hrinu voru liðin nokkuð jöfn og skiptust á að fá stig þar til HK gaf aðeins meira í og sigruðu hrinuna 25-20. Önnur hrina var svipuð og sú fyrsta en þar hafði Völsungur betur í lokin og sigraði hrinuna 23-25.

Völsungur byrjuðu þriðju hrinu af krafti og leiddu 1-5 þegar HK tók leikhlé. Þá rifu HK konur sig í gang og náðu að jafna í 6-6 sem fékk Völsung til þess að taka leikhlé sem dugði ekki til og HK komust í 9-6. Völsungur náði ekki að finna mörg svör við sterku liði HK og þær sigruðu hrinuna að lokum 25-21.

Líkt og fyr í leiknum var fjórða hrina hnífjöfn allan tímann og mikil spenna var í Digranesinu. Þó að Völsungur héldi forystunni mestan hluta hrinunnar var aldrei mikið á milli liðanna. Liðin voru jöfn í stöðunni 22-22 og fóru í upphækkun með flottum stigum og tilþrifum. Að lokum voru það þó HK stelpur sem höfðu betur og sigruðu 32-30 og þar með leikinn 3-1.

HK eru því komnar í undanúrslit í Kjörísbikar kvenna 2025 sem verður haldin helgina 6.-9. mars.