Innlendar fréttir

HK sigrar Vestra í oddahrinu

HK tók á móti Vestra í Unbrokendeildinni fyrr í kvöld. Liðin sitja í fimmta og sjöunda sæti í deildinni fyrir leikinn og geta HK komið sér í sjötta sæti með því að næla sér í þrjú stig.

HK byrjaði fyrstu hrinu af krafti og gáfu ekkert eftir, þeir enduðu á að vinna hrinuna sannfærandi 25-16. Önnur hrina var mjög svipuð og sú fyrsta nema nú var það Vestri sem leiddu og sigruðu hana 17-25 og því staðan jöfn 1-1.

Í þriðju hrinu voru gestirnir sterkir og ætluðu sér öll þrjú stigin og unnu hrinuna 16-25. Í fjórðu hrinu voru liðin mjög jöfn og börðust fyrir öllum stigum. HK hafði þó betur og vann hrinuna 27-25 og því var það oddahrina sem lét ráða úrslitum.

HK byrjuðu oddahrinuna vel og leiddu strax 5-1. Vestri náði ekki að finna nein svör og sigruðu HK hrinuna sannfærandi 15-5 og því leikinn 3-2.

Næstu leikir liðanna verða spilaðir 25. janúar, HK gegn Þrótti Fjarðarbyggð á Neskaupsstað og Vestra er heimaleikur gegn Völsungi.