Innlendar fréttir

KA komnir áfram í Kjörísbikarnum

Í kvöld fór fram viðureign KA og Þróttar fjarðabyggðar í átta liða úrslitum í Kjörísbikarnum. KA náði fljótt tökum á leiknum og var sigurinn í hrinunni aldrei í hættu hjá heimamönnum og unnu þeir hrinuna 25-13

Þróttarar komu sterkir til baka og byrjuðu aðra hrinu betur. Í stöðunni 6-11 fyrir Þrótti tóku KA menn leikhlé til þess að stoppa það skrið sem gestirnir voru komnir á. Það dugði ekki til og Þróttarar héldu áfram sömu siglingu. Síðan þegar fór að líða undir lok hrinunnar fóru KA menn að setja í næsta gír og minnkuðu forskotið sem Þróttarar voru búnir að vinna upp jafnt og þétt og náðu loks að jafna stöðuna í fyrsta skiptið í hrinunni, 18-18. Eftir það var leikurinn gríðarlega spennandi og skiptust liðin á stigum og fór hrinan í upphækkun þar sem KA menn höfðu betur og unnu hrinuna 29-27.

Það dró svolítið neistan úr gestunum að hafa ekki náð að klára aðra hrinu og spilaðist þriðja hrina því mjög svipað og sú fyrsta þar sem KA menn voru með yfirhöndina alla hrinuna. Þeir unnu hrinuna að lokum 25-18 og unnu þar með leikinn 3-0. KA tryggði sér þar með síðasta lausa sætið í fjagra liða úrslitum í Kjörísbikarnum og verður því dregið á næstu dögum. Liðin sem komust einnig áfram eru HK, Afturelding og Þróttur Reykjavík.

Stigahæsti leikmaður KA í leiknum var Oscar Fernández með 14 stig og þar á eftir var Marcel Pospiech með 13 stig. Stigahæstur í liði Þróttara var Pedro Nascimento með 8 stig og þar á eftir var José Federico með 5 stig.