Fréttir - Innlendar fréttir

KA sótti þrjú stig í Mosó

Afturelding tók á móti KA í Unbrokendeild karla. Gestirnir frá Akureyri byrjuðu fyrstu hrinuna betur og leiddu 11-15. Heimamenn áttu erfitt uppdráttar á meðan KA héldu sterkir út hrinuna sem þeir kláruðu sannfærandi 15-25.

Afturelding komu einbeittir inn í aðra hrinu og komu sér í góða stöðu 15-11 þegar KA tóku leikhlé. Gestirnir náðu aldrei að vinna upp það forskot sem Afturelding náði að byggja sér upp og unnu þeir aðra hrinuna 25-18.

KA byrjuðu þriðju hrinuna af krafti og leiddu snemma 2-7. Afturelding vann sig þó aftur inn í hrinuna og stóðu leikar jafnir í stöðunni 15-15. Hrinan hélt áfram að vera jöfn allt þar til á lokametrunum þegar KA kláraði hrinuna 23-25.

Afturelding sá aldrei til sólar í fjórðu hrinu. KA náði snemma yfirhöndinni á hrinunni og leiddu þeir þegar komið var í hálfa hrinu 6-15. Gestirnir héldu einbeittir út hrinuna sem þeir kláruðu örugglega 13-25.

Eftir sigurinn situr KA í öðru sæti með 39 stig á meðan Afturelding verða að láta fjórða sætið duga með 25 stig.