Völsungur sótti Þrótt Fjarðabyggð í Unbrokendeild kvenna í gær og voru það gestirnir frá Húsavík sem byrjuðu leikinn betur og leiddu snemma leiks 16-8. Þrátt fyrir góða baráttu hjá Þrótti náðu þær ekki að vinna upp það forskot sem Völsungur náði að byggja sér. Gestirnir tóku fyrstu hrinuna 25-19.

Önnur hrinan var mikið jafnari þar sem liðinn skiptust á að halda forustu. Leikar stóðu jafnir í stöðunni 15-15. Þegar komið var í hálfa hrinu gaf Völsungur vel í og leiddu restina af hrinunni sem þær kláruðu sterkt 25-18.

Völsungur byrjaði þriðju hrinuna mjög vel og komust snemma í sjö stiga forustu 10-3. Þróttur gaf þá í og náðu að jafna hrinuna í stöðunni 13-13. Við tók spennandi kafli þar sem liðinn börðust við að ná takinu á hrinunni. Heimakonur héldu sterkar út hrinuna sem þær kláruðu 25-23 og var því staðann 2-1 í hrinum fyrir Völsung.

Völsungur byrjaði fjórðu hrinuna af krafti og leiddu þegar komið var í hálfa hrinu 15-8. Lítið gekk upp hjá heimakonum á meðan Völsungur spiluðu sterkan leik. Gestirnir kláruðu svo hrinuna sannfærandi 25-14 og sigruðu þar með leikinn 3-1.

Stigahæst í liði Þróttar Fjarðabyggð var Ester Rún Jónsdóttir með 15 stig.
Stigahæst í liði Völsungs var Kristine Telvane með 17 stig.