Uncategorised

Grannaslagur á Akureyri

Miðvikudaginn 2. október var grannaslagur á Akureyri þar sem að KA menn tóku á móti Völsung í KA heimilinu.

Völsungur mættu með sterkt lið og byrjaði leikurinn jafn. Í stöðunni 8-8 gáfu gestirnir í og komu sér í 8-11 forystu, en þá tók þjálfari KA leikhlé. Leikhléið kveikti í KA mönnum þar sem að þeir komu sterkir inn og tóku 9 stig í röð og leiddu þar með hrinuna 17-11. KA menn héldu áfram að spila að krafti og voru Völsungur í vandræðum með heimamennina og áttu ekki mörg svör við spili þeirra, en misstu þá þó aldrei langt fram úr sér. Á endanum sigruðu KA menn fyrstu hrinu 25-19.

Önnur hrina byrjaði vel fyrir gestina þar sem að þeir leiddu 2-6. Hægt og rólega náðu KA menn að minnka muninn og tóku Völsungur leikhlé í stöðunni 11-13. KA menn héldu áfram sínu ról og leiddu hrinuna 22-16. Völsungur settu þá fótinn á bensíngjöfina og minkuðu muninn niður í 24-22. KA menn höfðu þó betur og lokuðu hrinunni 25-22.

Þriðja hrina byrjaði jöfn upp að stöðunni 6-6, líkt og í fyrri hrinum. Þá gáfu KA menn í og komu sér í 9-6 forystu. Hægt og rólega minkuðu Völsungur muninn og náðu að jafna KA menn í stöðunni 16-16. Eftir það voru liðin jöfn en voru KA menn betri, þar sem þeir gerðu einfaldlega örlítið færri mistök en gestirnir og var það sem skildi að liðin í leiknum og færði KA mönnum sigur í hrinunni 25-21 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæðsti leikmaður KA var Miguel Mateo með 15 stig. Fyrir lið Völsungs var það Hristo Petkov stigahæsðstur með 20 stig.

Næsti leikur KA er laugardaginn 5. október þar sem að þeir halda austur og mæta Þrótti Fjarðabyggð. Völsungur eiga einnig leik á laugardaginn 5. október á heimavelli þar sem að þeir fá HK í heimsókn.