Álftanes sótti Þrótt Fjarðabyggð heim í Neskaupstað í Unbrokendeild kvenna í dag. Fyrir leikinn sat Þróttur í sjötta sæti á meðan Álftanes sat í því sjöunda.
Fyrsta hrinan var jöfn þar sem liðinn skiptust á að halda forustunni. Leikar stóðu jafnir í stöðunni 12-12. Álftanes gáfu þá í og komust í þriggja stiga forustu í 19-16. Þróttur jafnaði leikinn í 19-19 og náði eftir það yfirhöndinni í hrinuni sem endaði 25-23 fyrir heimakonum.
Álftanes konur komu einbeittar inn í aðra hrinu og komust í góða stöðu 14-8 þegar þróttur tók leikhlé. Þróttur gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn í 14-14. Álftanes gáfu þá í og náðu upp fjögra stiga forustu 21-17. Þróttur náði ekki að vinna upp þann mun og kláraði Álftanes hrinuna 21-25.
Þróttur náði snemma yfirhöndinni í þriðju hrinu og leiddu 15-9 þegar Álftanes tók sitt fyrsta leikhlé. Þróttur hélt áfram og komust í góða stöðu 19-10. Álftanes náði sér aldrei í gang í hrinunni og kláraði Þróttur hrinuna heldur örugglega 25-16.
Fjórða hrina var jöfn og spennandi. Álftanes tók leikhlé í stöðunni 13-12 fyrir Þrótti. Eftir leikhléið náði Álftanes að jafna leikinn en Þróttur var þó alltaf einu skrefi á undan. Þrátt fyrir mikla baráttu gestana kláraði Þróttur fjórðu hrinuna 25-20 og unnu þar með leikinn 3-1.
Stigahæst í Þrótti Fjarðabyggð var Hrefna Ágústa Marinósdóttir með 19 stig.
Stigahæst í Álftanesi var Nejira Zahirovic með 10 stig.