Í kvöld fékk HK Þrótt Reykjavík í heimsókn en það er orðið langt síðan að HK konur spiluðu á heimavelli og voru þær því tilbúnar í slaginn.
Heimakonur komu sterkar inn í leikinn og komu sér strax í 4-1 forystu. HK voru í góðum gír og leiddu hrinuna 10-2. Þróttur Reykjavík gáfu þó í og náðu að minka muninn í 13-8 en þá tók þjáfari HK leikhlé. HK konur settu þá í 5 gír og leiddu hrinuna 18-10, eftir það áttu gestirnir erfitt með að koma sér á strik og eftir að HK hafði verið yfir alla hrinuna lokuðu þær henni 25-17.
Önnur hrina var hníjöfn og skiptust liðin á því að skora og var aldrei meira en tveggja stiga munur á liðunum. Eftir æsispennandi hrinu höfðu HK konur betur og sigruðu hrinuna 25-23.
Þriðja hrina byrjaði með sama stíl og önnur hrina og skiptust liðin á því að skora. HK náði síðan 16-11 forystu, Þróttur Reykjavík hættu þó ekki að berjast og héldu í HK. Það dugði þó ekki til og sigruðu HK hrinuna 25-20 og þar með leikinn 3-0.
Stigahæsti leikmaður HK var Þórdís Guðmundsdóttir með 12 stig en í liði Þróttar Reykjavíkur var Malina stigahæst með 8 stig.