
Karlalið Þróttar Reykjavík og HK mættust í fyrsta leik í bikarkeppninni.
HK-ingar byrjuðu leikinn sterkt og voru komnir yfir 8 – 4 og náðu þeir að halda forskotinu alveg þangað til Þróttur Reykjavík jafnaði í 21 – 21. HK gáfu hins vegar ekkert eftir og héldu áfram að spila vel og unnu fyrstu hrinu 25 – 22.
Þróttur Reykjavík byrjaði með sama krafti og þeir enduðu fyrstu hrinu og voru komnir yfir 5 – 9. HK hélt í þá alla hrinuna en náðu hins vegar aldrei að jafna. HK náði að minnka muninn í eitt stig í lok hrinunnar, 23 – 24 en Þróttur kláraði 23 – 25.
Staðan var þá 1 – 1 í hrinum og bæði lið sjóðheit og byrjaði þriðja hrinan mjög jafnt og voru liðin jöfn í 11 – 11 og 16 – 16. Þróttur Reykjavík náði þá tveggja stiga forskoti sem þeir náðu að halda út alla hrinuna, HK náðu aftur líkt og í annarri hrinu að minnka muninn í eitt stig í 23 – 24 en þá var dæmd villa á HK fyrir að standa með hendur fyrir ofan haus upp við net sem er alveg glæný regla. Leikmenn mega sem sagt ekki skyggja uppgjafarann fyrir móttökulínu andstæðings og ef þú gerir það fær andstæðingurinn stig, og vann Þróttur Reykjavík hrinuna 23 – 25 og kom þeim 1 – 2 yfir í hrinum.
Fjórða hrina byrjaði með sama spenningi og hinar og voru liðin hnífjöfn þangað til í 14 – 14, þá gaf HK í og komst 19 – 16 yfir og náði að halda þessu forskoti. Þróttur Reykjavík gáfu í alveg í lokin og minnkuðu muninn, 24 – 23, en HK náði þá seinasta stiginu og kláruðu hrinuna 25 – 23 og jöfnuðu leikinn 2 – 2.
Þróttur Reykjavík byrjuðu oddahrinuna sterkari og voru komnir 2 – 4 yfir, HK átti í smá erfiðleikum með að koma sér inn í hrinuna en Þróttur Reykjavík hélt áfram að spila vel og unnu oddahrinuna 9 – 15 og því með leikinn 2 – 3.
Þróttur Reykjavík eru því komnir í úrslit í bikarkeppninni og mæta annaðhvort KA eða Aftureldingu á laugardaginn.