Holte, þar sem Sara Ósk leikur, mætti Gentofte í undanúrslitum um danska meistaratitilinn.
Fyrsti leikurinn fór fram sunnudaginn 23. mars á heimavelli Holte. Heimakonur komu sterkar til leiks og náðu snemma öruggri forystu, 16-7. Gentofte áttu í erfiðleikum með að finna svör við leik Holte, sem hélt forskotinu og leiddi 19-9 áður en þær kláruðu hrinuna örugglega, 25-12.
Önnur hrina fylgdi svipuðu mynstri, þar sem Holte stjórnaði leiknum frá upphafi. Þær náðu 16-7 og síðar 21-9 forystu áður en þær innsigluðu annan sannfærandi sigur, 25-11.
Þriðja hrina var mun jafnari, en Holte héldu þó alltaf yfirhöndinni. Þær tryggðu sér sigur í hrinunni 25-18 og kláruðu leikinn 3-0.

Annar leikur undanúrslitanna fór fram á heimavelli Gentofte þann 27. mars.
Gentofte komu mun sterkari inn í þennan leik en þann fyrri, með betri og stabílari uppgjöfum, betri mótöku og sterkari sóknum. Leikurinn byrjaði jafn, þar sem liðin skiptust á að skora. Undir lok hrinunnar náðu Holte að gefa í og innsigluðu sigur í hrinunni, 19-25.
Gentofte hóf aðra hrinu með 5-0 forystu, en Holte svaraði strax og jafnaði í 5-5. Um miðja hrinu fór Holte að hafa betur og komust í 11-16 forystu. Holte kláruðu hrinuna á endanum 20-25.
Þriðja hrina byrjaði jöfn, en um miðja hrinu settu Holte í gír og náðu 13-21 forystu. Þær lokuðu hrinunni með 17-25 sigri og unnu þar með leikinn 3-0.

Þriðji leikurinn fór fram þann 29. mars á heimavelli Holte. Holte mættu svo sannarlega grimmar til leiks þar sem að þær satt best að segja völtuðu yfir Gentofte með 3-0 sigri ( 25-12, 25-11 og 25-14).
Holte hefur þar með tryggt sér sæti í úrslitum um danska meistaratitilinn eftir þrjá 3-0 sigra gegn Gentofte. Ekki er enn komið í ljós hverjum þær mæta í úrslitum þar sem að einvígið milli ASV Elite og Brøndby stendur í 2-1 fyrir ASV Elite.