Erlendar fréttir

8 liða úrslit í Champions League kvenna

Undanfarnar vikur hefur farið fram 8 liða úrslit í Champions League Volley 2025 kvenna þar sem bestu liðin frá Ítalíu, Tyrklandi og Póllandi bárust um að komast áfram. Mörg önnur lið frá alls kyns löndum tóku þátt en aðeins þessi 8 lið komust úr riðlakeppni og umspili. Átta liða úrslitin fara þannig fram að hvert lið spilar heima og á útivelli, tveir sigrar kemur liði í undanúrslitin en ef lið vinna sitthvorn leikinn er spiluð svokölluð gullhrina strax eftir seinni leikinn. Gullhrina er eins og oddahrina, hún er spiluð upp í 15 og sá sem sigrar hana fer áfram í undanúrslitin. Í þessari viku kom í ljós hvaða kvennalið það eru sem fara til Istanbul og spila í 4 liða úrslitum.

Numia Vero Volley Milano – Eczacibasi Dynavit Istanbul

Milano er í öðru sæti í ítölsku deildinni og Eczacibasi er einnig í öðru sæti í sinni deild í Tyrklandi. Fyrri leikur liðanna fór fram á Ítalíu þar sem Milano hafði góða stjórn á leiknum og vann hann nokkuð þæginlega 3-0 (25-18, 25-23, 25-14). Milano hefur fjóra byrjunarliðs leikmenn úr Ítalska landsliðinu sem sigruðu Ólympíuleikana 2025 á meðan Eczacibasi hefur heimsfræga díóinn Tijana Boskovic og ríkjandi Champions League meistara Kathryn Plummer ásamt fleiri góðum leikmönnum. MVP leiksins var Paola Egonu sem skoraði 17 stig í leiknum. Seinni leikur liðanna fór fram í Tyrklandi þar sem fyrstu tvær hrinurnar voru mjög spennandi. Í báðum hrinunum voru Eczacibasi með möguleikann á að klára hrinuna en misstu það frá sér og fóru þær 24-26 fyrir Milano. Þriðja hrinan var ekki jafn spennandi og Milano sigraði hana 21-25 og voru því komnar áfram í 8 liða úrslit. Ítalska landsliðskonan Myriam Sylla var valin leikmaður leiksins með 15 stig í leiknum.

Developres Rzeszów – A. Carraro Imoco Conegliano

Conegliano eru ríkjandi Champions League meistarar og sitja í efsta sæti í ítölsku deildinni en Rzeszów eru í öðru sæti í pólsku deildinni. Liðin voru saman í riðli A þar sem Conegliano vann alla sína leiki 3-0 nema einn á móti Rzeszów sem fór 3-1 fyrir Conegliano. Í liði Conegliano eru margar stórstjörnur eins og Zhu Ting, Gabi, Monica De Gennaro og Isabelle Haak og því erfitt fyrir Rzeszów að sigra þær. Eins og mátti búast við sigraði Conegliano báða leikina 3-0 og eru því komnar í undanúrslitin. MVP fyrri leiksins var Gabi Guimaraes og seinni leiksins var það Isabelle Haak.

VakifBank Istanbul – Fenerbahce Medicana Istanbul

Fenerbahce er í fyrsta sæti tyrknesku deildarinnar en VakifBank er í þriðja sæti eins og stendur. Fyrri leikur liðanna fór fram á heimavelli VakifBank þar sem Fenerbahce sigraði 0-3 í spennandi leik. MVP leiksins var Arina Fedorovtseva sem skoraði 18 stig í leiknum. Seinni leikur liðana fór fram á heimavelli Fenerbahce. Fyrsta hrinan fór 25-19 fyrir heimakonum og allt leit út fyrir það að Fenerbahce myndi fara áfram í undanúrslitin. Í æsispennandi annarri hrinu voru það VakifBank sem höfðu betur 23-25 og jöfnuðu 1-1. Bæði lið spiluðu frábært blak og sýndu að þau áttu heima í Meistaradeildinni. VakifBank gáfu allt sem þær höfðu í næstu tvær hrinur sem þær sigruðu 20-25 og 24-26 og þar með leikinn 1-3. Þetta þýddi að liðin voru jöfn og spiluð var þá gullhrina. Fenerbahce hófu gullhrinuna betur og komu sér í þægilega stöðu 6-2. Þá tók Giovanni Guidetti þjálfari VakifBank leikhlé sem virkaði heldur betur þar sem þær náðu að minnka muninn niður í 5-6 með flottum uppgjöfum frá Van Ryk. Liðin skiptust á að skora stig en eftir 8-8 sýndu VakifBank yfirburði og kláraði hrinuna 11-15. MVP leiksins var Marina Makova sem skoraði 31 stig í leiknum. VakifBank var með hvorki meira né minna en 17 blokkir og Zehra Gunes var með 9 af þeim. Með þessari frábæru baráttu komust VakifBank í undanúrslitin í Champions League.

PGE Grot Budowlani Lódz – Savino Del Bene Scandicci

Budowlani Lódz spilar í pólsku deildinni þar sem þær eru í þriðja sæti og Scandicci situr einnig í þriðja sæti í sinni deild á Ítalíu. Í Scandicci spilar Íslandsvinurinn Ekaterina Antropova ásamt fleiri frábærum leikmönnum. Fyrri leikur liðanna fór fram í Póllandi þar sem heimakonur sýndu flotta takta en það dugði ekki til að sigra ítalska liðið og þær sigruðu leikinn 0-3 (22-25, 22-25, 21-25). MVP var serbneski uppspilarinn Maja Ognjenovic. Seinni leikurinn fór fram á heimavelli Scandicci þar sem þær sigruðu leikinn nokkuð sannfærandi 3-0 (25-17, 25-17, 25-16).

Úrslitahelgin

Úrslitahelgin verður 3.-4. maí í Istanbul í Tyrklandi. Í undanúrslitum mætast ítölsku liðin Conegliano og Milano og í hinum leiknum mætast VakifBank og Scandicci. Leikirnir verða sýndir á https://www.eurovolley.tv/ og mælum við með að næla ykkur í áskrift þar sem einnig er hægt að sjá fyrri leiki.