Laugardaginn 20. janúar hélt Holte til Ikast þar sem að þær mættu ungu og efnilegu liði Ikast KFUM.
Holte byrjaði leikinn vel þar sem að þær komu sér í 3-12 forystu. Holte voru með yfirhöndina alla hrinu og lokuðu hrinunni sannfærandi 14-25.
Önnur hrina var að sama skapi og sú fyrsta og var staðan 5-12 fyrir Holte. Holte konur voru ekki í vandræðum með Ikast og sigruðu hrinuna 15-25.
Ikast komu sterkar inn í 3. hrinu og byrjaði hrinan mun jafnari en fyrstu tvær. Holte voru með yfirhöndina og litu út fyrir að vera með fulla stjórn á leiknum. Eins og flestir vita þá getur allt gerst í blaki og í stöðunni 15-21 fyrir Holte gáfu Ikast konur í og náðu að jafna í stöðunni 22-22. Ikast gáfu ekkert eftir og sigruðu á endanum hrinuna 25-22.
Ikast voru í stuði og komu inn að krafti í 4. hrinuna. Hrinan byrjaði jöfn en ekki leið langt á hrinuna þegar að Ikast kom sér í 13-9 forystu. Þjálfari Holte tók leikhlé í stöðunni 17-12 í von um að snúa hrinunni við. Með góðum sóknum og glæsilegum baráttuanda Ikast liðsins áttu Holte konur erfitt með að brúa bilið og sigruðu heimakonur hrinuna 25-20.
Ikast byrjuðu oddahrinuna vel og komu sér í 8-2 forystu. Með alltof mörgum mistökum hjá Holte og frábæru spili Ikast áttu Holte konur erfitt með Ikast. Eftir frábæran leik hjá Ikast sigruðu þær hrinuna 15-10 og þar með leikinn 3-2.
Leikmaður leiksins hjá Holte var nýji spilarinn þeirra Kristine Leskinovica en hún er aðeins 19 ára gömul frá Latvíu og er komin til þess að spila seinni helming tímabilsins með Holte.
Næsti leikur Holte er sunnudaginn 28. janúar þar sem að þær mæta Gentofte á heimavelli.