HK tók á móti liði Aftureldingar í Unbroken-deild kvenna í kvöld. Fyrir leik kvöldsins var HK í fyrsta sæti deildarinnar og Afturelding í öðru sæti eftir tvær umferðir og þar með mátti búast við hörku leik.
Afturelding byrjaði leikinn vel og sigraði fyrstu hrinuna nokkuð örugglega 13-25 og komnar með forystu.
Önnur hrina var mjög spennandi og skiptust liðin mikið á að skora en að lokum höfðu HK konur betur og sigruðu hrinuna 25-21 og staðan orðin 1-1. Í þriðju hrinu voru liðin mjög jöfn til að byrja með en í stöðunni 6-6 gáfu Aftureldingar konur í og sigruðu hrinuna nokkuð örugglega 12-25.
Afturelding byrjaði fjórðu hrinu af krafti og komust fljótt í 5-11. HK konur gáfust þó ekki upp og náðu að jafna í 13-13. Eftir það skiptust liðin á að fá stig en að lokum hafði HK betur 25-23 og liðin á leiðinni í oddahrinu.
Afturelding byrjaði oddahrinuna vel og komust fljótt í 1-6. HK konur náðu lítið að svara og Afturelding sigraði örugglega 5-15 og þar með leikinn 2-3.
Stigahæst í liði Aftureldingar var Michelle Traini með 19 stig og á eftir henni var það Tinna Rut Þórarinsdóttir með 18 stig. Í liði HK var Líney Inga Guðmundsdóttir stigahæst með 21 stig og næst á eftir henni var Victoria Erwat með 13 stig.
Eftir leik kvöldsins heldur HK ennþá fyrsta sæti Unbroken-deildarinnar með 7 stig og Afturelding er rétt á eftir þeim með 6 stig. HK fer norður á laugardaginn 5. október þar sem þær mæta Völsungi á Húsavík en Afturelding spilar ekki fyrr en 19. október þar sem þær fá Þrótt Reykjavík í heimsókn.