Innlendar fréttir

Hörkuleikir um helgina fyrir norðan

Karlalið KA tók á móti liði Þróttar Fjarðabyggðar síðastliðið föstudagskvöld. KA menn byrjuðu leikinn virkilega vel og sigu fljótt fram úr gestunum. Þróttara tóku vel á móti en há hávörn KA gerði gestunum erfitt að skora stig. Ungir og efnilegir leikmenn fengu að spreyta sig hjá heimamönnum þar sem nær allir leikmenn fengu að koma við sögu. Hrinan endaði að lokum 25-12 fyrir heimamönnum.

Nokkrar breytingar voru gerðar á liði heimamanna í annarri hrinu. Hrinan byrjaði nokkuð jöfn þar til um 10 stig voru búin. Þá byrjuðu heimamenn að síga aðeins frammúr. Þróttarar komu þó aðeins til baka með fínu spili og einnig fóru heimamenn að gera heldur mörg mistök. Þeir náðu að saxa á forskotið niður í 22-19. KA menn tóku þó aftur við sér og kláruðu hrinuna 25-21.

Þriðja hrina spilaðist svipað og önnur hrina þar sem hún var tiltölulega jöfn og mikið var um mistök hjá heimamönnum. KA menn náðu þó að klára hrinuna 25-22 og unnu þar með leikinn 3-0.

Ekki er vitað stigaskor leikmanna í leiknum en fréttin verður uppfærð síðar.

Kvennalið KA tók þar næst við á laugardagskvöldinu þegar þær tóku á móti Aftureldingu. Fyrsta hrina byrjaði mjög spennandi þar sem bæði lið skiptust á að skora stig. Þegar leið á fóru gestirnir aðeins að síga frammúr heimkonum. Þær tóku aðeins við sér um miðja hrinu og jöfnuðu í stöðunni 12-12. Eftir það skiptust liðin oft á að leiða leikinn og náði hvorugt liðið einhverju forskoti. Það var allt hnífjafnt þar til undir lokin þegar gestirnir höfðu betur með færri mistökum og meiri yfirvegun og unnu hrinuna 27-25.

Aftureldingarkonur byrjuðu sterkt í annarri hrinu og náðu fljótt upp miklu forskoti. Heimakonur mættu einfaldlega ekki til leiks fyrr en þegar langt var liðið á hrinuna. Afturelding var að vinna 16-7 þegar heimakonur gáfu í og fóru að skora stig. Þær náðu með einhverjum ótrúlegum hætti að jafna hrinuna í stöðunni 20-20 og snúa henni þeim í vil og unnu KA konur hrinuna 25-21.

Afturelding byrjaði sterkt líkt og í annarri hrinu og náðu upp góðu forskoti. Þær náðu þó að halda því út alla hrinuna og átti KA aldrei séns í hrinunni. Gestirnir unnu hrinuna að lokum 25-18.

Fjórða hrinan var svo spennandi líkt og sú fyrsta þar sem liðin skiptust á að leiða hrinuna. Það var ekki fyrr en undir lok hrinunnar sem gestirnir settu í næsta gír og voru ákveðnar að vinna leikinn og unnu þær hrinuna á endanum 25-20 og unnu þær þar með leikinn 3-1.

Stigahæst í liði KA var Julia Bonet með hvorki meira né minna en 31 stig og henni á eftir fylgdi Paula Del Olmo með 21 stig. Stigahæstar í liði Aftureldingar voru þær Valdís Unnur og Tinna Rut með 14 stig hvor.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *