Fréttir - Okkar fólk úti

Grannaslagur í Bratislava

Það var sannkallaður grannaslagur þegar Slavia tók á móti VKP Bratislava í seinni hluta deildarkeppninnar í Slóvakíu í gær. VKP byrjuðu leikinn betur og leiddu snemma í fyrstu hrinu 9-14. Þegar VKP var komið í góða stöðu 16-20 snéri Slavia leiknum gjörsamlega við og gerðu sér lítið fyrir og sóttu níu stig í röð. Þær kláruðu fyrstu hrinuna því 25-20. 

VKP komu einbeittar inn í aðra hrinuna og náðu strax yfirhöndinni í hrinunni á meðan Slavia átti gríðarlega erfitt uppdráttar. VKP leiddi með níu stigum í stöðunni 6-15 þegar Slavia hrökk skyndilega í gang. Þrátt fyrir mikla baráttu Slavia náðu þær ekki að jafna hrinuna sem endaði með sigri VKP 21-25.

Enn og aftur var það VKP sem byrjaði betur og komu þær sér í góða stöðu 10-17 þegar Slavia tók leikhlé. Líkt og í annarri hrinu þá hrökk Slavia í gang þegar komið var í hálfa hrinu og náðu að vinna upp forskotið en tókst ekki að jafna hrinuna sem VKP kláraði aðeins með tveggja stiga mun, 23-25.

Það var allt annað að sjá til Slavia í fjórðu hrinu þegar þær tóku öll völdin á vellinum og komu sér í frábæra stöðu 17-9. VKP sá aldrei til sólar í hrinunni sem Slavia kláraði sannfærandi 25-17 og varð því að halda í oddahrinu.

Oddahrinan var gríðarlega spennandi og var það Slavia sem leiddi með einu stigi þegar liðinn skiptu um vallarhelming í stöðunni 8-7. Lokaspretturinn á leiknum var æsispennandi og var það að lokum VKP sem kláraði hrinuna með aðeins tveggja stiga mun 13-15 og sigruðu þar með grannaslaginn 2-3.