Fréttir - Okkar fólk úti

Slavia náði að hefna fyrir tapið

Nové Mesto tók á móti Slavia í seinni hluta deildarkeppninnar í Slóvakíu í gær þar sem gestirnir frá Bratislava áttu harms að hefna. Seinasti leikur milli þessara liða féll með Mesto og var það greinilegt að Slavia vildi heldur bæta upp fyrir það. Slavia byrjaði fyrstu hrinuna af krafti þar sem þær náðu fljótt yfirhöndinni í hrinunni og leiddu með tíu stigum í stöðunni 9-19. Nové Mesto sá aldrei til sólar í hrinunni sem Slavia kláraði sannfærandi 16-25.

Það var allt annað að sjá til Nové Mesto í annarri hrinu og náðu þær að nýta sér mistök gestanna þar til þær komu sér í fjögurra stiga forustu 16-12. Nové Mesto leiddi út hrinuna en þrátt fyrir góða baráttu Slavia náðu þær ekki að jafna og kláraði Nové Mesto hrinuna 25-20.

Þriðja hrina var gríðarlega jöfn þar sem liðin skiptust á að leiða og stóðu leikar jafnir í stöðunni 16-16. Hrinan var jöfn alveg þar til í enda hrinunnar þegar staðan var enn jöfn 24-24 og þurfti því upphækkun til að knígja fram úrslit. Slavia gerði sér þá lítið fyrir og náði í næstu tvö stig til að klára hrinuna 24-26.

Fjórða hrina var einnig mjög jöfn og spennandi þar sem jafnt var með liðum í stöðunni 15-15. Þá sagði okkar kona Matthildur Einarsdóttir nóg og hélt uppgjafarréttinu alveg þar til staðan var 15-21 fyrir Slavia. Það var grunnurinn að þægilegum sigri í fjórðu hrinu sem endaði 20-25 og náði Slavia þar með að hefna fyrir seinasta leik gegn Nové Mesto.