Sant Joan spilar í Superliga 2 á Spáni þar sem íslensku landsliðskonurnar Arna Sólrún og Jóna Margrét spila. Síðastliðnar vikur hafa þær verið í baráttu að halda sér uppi í deildinni þar sem neðstu tvö liðin fara niður um deild. Aðeins þrjú stig voru á milli Sant Joan og Atarfe sem var í næst neðsta eða ellefta sæti og því var mikilvægt að fá þrjú stig á móti Hidramar sem er í sjöunda sæti deildarinnar.
Hidramar byrjaði leikinn vel og sigraði fyrstu hrinu 15-25. Sant Joan komu mun sterkari inn í aðra og þriðju hrinu og sigruðu þær 25-21 og 25-16 og því komnar með 2-1 forystu. Þriðja hrina var mjög jöfn og spennandi þangað til í stöðunni 21-17 fyrir Sant Joan. Hidramar vildi gera tvöfalda skiptingu með uppspilara og díó en aðeins uppspilarinn fór að aðstoðardómaranum. Dómararnir leyfðu því aðeins eina skiptingu þar sem báðir leikmenn þurfa að koma saman að dómaranum. Þjálfarar og leikmenn voru ekki sáttir og vældu mikið í dómurunum. Þá ákváðu dómararnir að gefa rautt spjald á þjálfara liðsins og því var Sant Joan komin með enn meiri forystu eða 22-17. Þegar rautt spjald er gefið fá andstæðingarnir stig og uppgjafarétt. Eftir þetta hættu leikmenn og þjálfari ekki að kvarta þannig að dómarar gáfu annað rautt spjald og þá var Sant Joan komið í 23-17. Sant Joan nýtti sér þetta vel og kláraði hrinuna 25-17 og þar með leikinn 3-1.
Nú hefur Sant Joan 6 stiga forskot á Atarfe og aðeins tvær umferðir eru eftir af deildinni. Atarfe þarf að sigra báða sína leiki 3-0 eða 3-1 til þess að bjarga sér upp úr fallsæti en Sant Joan þarf aðeins eitt stig úr næstu tveimur leikjum. Næsti leikur þeirra er næsta laugardag á Benidorm, hægt er að fylgjast með hér: http://www.youtube.com/@ClubVoleibolPlayasdeBenidorm og seinasti leikur þeirra er síðan gegn Paterna á heimavelli, hægt er að fylgjast með hér: www.youtube.com/@cvsantjoan5295.