Fréttir - Innlendar fréttir

Afturelding með sigur í sínum seinasta leik

Þróttur Fjarðabyggð sótti Aftureldingu að varmá í Unbrokendeild karla og var þetta seinasti leikur Aftureldingar fyrir úrslitakeppnina en Þróttur Fjarðabyggð á einn eftir. Það var jafnt í fyrstu hrinu 10-10 þegar heimamenn sóttu sjö stig á meðan gestirnir nældu sér aðeins í eitt og var því staðan fljótt orðin mjög góð fyrir Aftureldingu 17-11. Þróttur náði að vinna sig til baka en það gékk þó ekki hjá þeim að jafna aftur hrinuna sem heimamenn kláruðu 25-19.

Önnur hrina var spennandi og stóðu leikar jafnir í stöðunni 15-15. Áfram var jafnt með liðum alveg þar til í endann 25-25. Þróttur gerði sér þá lítið fyrir og sótti næstu tvö stig og kláruðu þessa æsispennandi hrinu 25-27.

Þróttur byrjaði betur í þriðju hrinu og leiddu 9-12 þegar heimamenn tóku sitt fyrsta leikhlé. Afturelding hleypti Þrótti þó aldrei langt á undan sér og náðu þeir að vinna upp forskotið þegar Sigþór jafnaði hrinuna í stöðunni 18-18. Áfram var jafnt í stöðunni 23-23 þegar Afturelding skellti í lás og sótti næstu tvö stig. Þriðja hrina endaði því 25-23 og var þá orðið 2-1 í hrinum.

Fjórða hrina var mjög jöfn framan af þar sem bæði lið skiptust á að leiða og stóðu leikar jafnir í stöðunni 15-15. Þá náði Afturelding þriggja stiga forustu sem Þróttarar voru ekki nógu sáttir með þar sem þeir tóku leikhlé í stöðunni 18-15 til að fara yfir sinn leik. Þróttur vann sig aftur inn í hrinuna og jöfnuðu hana loks í stöðunni 20-20. Hávörnin hrökk í gang hjá heimamönnum á lokasprettinum sem skilaði þeim sigri í fjórðu hrinu 25-22 og unnu þar með leikinn 3-1.