Innlendar fréttir

KA konur tryggja sér deildarmeistaratitilinn

Í gær, 22.mars, tóku KA konur á móti þrótti Reykjavík í seinustu umferð Unbrokendeildarinnar. KA þurfti aðeins eitt stig úr leiknum til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. KA byrjuðu fyrstu hrinu gríðarlega sterkt og náðu strax upp góðu forskoti á gestina og er vert að minnast á það að Valdís Kapitola kom inná snemma leiks og er þetta hennar fyrsta innkoma eftir barnsburð. Þróttur tekur loks leikhlé í stöðunni 18-10 fyrir KA en það er hreinlega of seint því KA vinna hrinuna nokkuð sannfærandi 25-17.

Önnur hrina byrjar svipað og sú fyrsta þar sem heimkonur ná fljótt upp ágætu forskoti þó varnarleikur gestanna hafi verið mjög góður og mikið um langar skorpur sem féllu oftar en ekki með KA. Í stöðunni 7-3 tekur Þróttur sitt fyrsta leikhlé. KA halda áfram með sama krafti og halda áfram að bæta á forskotið. Margir ungir og efnilegir leikmenn fengu að spreyta sig í KA liðinu og ánægjulegt að sjá hvað þær hafa blómstrað mikið í vetur. Vert er að minnast á Köru Margréti sem er fædd 2009 sem er ungur og efnilegur uppspilari. En þrátt fyrir ungan aldur er hún að leysa uppspilarastöðuna virkilega vel og sýndi svo sannarlega að framtíð hennar er björt. Þegar líður á hrinuna taka gestirnir aðeins við sér og ná að saxa vel á forskotið og minnkuðu munin í tvö stig, 16-14. KA setur þá bara í næsta gír og komust í stöðun 22-17 og tók þá þróttur sitt annað leikhlé. KA vinnur hrinuna að lokum 25-20. KA voru þá búnar að tryggja sér deildarmeistaratitilinn þar sem þær voru búnar að næla sér í stig úr leiknum.

KA gerir þá breytingar á liði sínu og aðeins þrír leikmenn sem eru vanalega í byrjunar liði inná. Gestirnir nýta sér það og byrja þriðju hrinu talsvert betur en KA. Í stöðunni 3-9 tekur KA sitt fyrsta leikhlé. Þróttara héldu áfram að pressa á heimkonur og voru skynsamar í sókninni. Paula Del Olmo kemur þá inn og veitir KA byr undir vængi og byrja þær að saxa hratt á forskotið og ná í fyrsta skiptið að jafna í hrinunni í stöðunni 21-21. Eftir ótrúlegan viðsnúning unnu KA hrinuna 25-22 og þar með leikinn 3-0 og eru deildarmeistarar unbrokendeildar kvenna.

Ekki eru komnar upplýsingar um stigaskor úr leiknum en fréttin verður uppfærð þegar þær fréttir berast

Við hjá blakfréttum óskum KA innilega til hamingju með titilinn