Innlendar fréttir

KA deildarmeistarar Unbrokendeild karla

Í gær tóku KA á móti Vestra í Unbrokendeild karla. Fyrir þennan leik voru KA menn nú þegar búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn þar sem Þróttur tapaði nú á dögunum á móti HK 3-2. Því var ekkert undir fyrir KA menn en Vestri þurfti á sigri að halda til þess að reyna að koma sér í umspil um Íslandsmeistaratitilinn.

KA byrjar fyrstu hrinu virkilega vel og ná hægt og rólega að ná taki á hrinunni og klára hana nokkuð öruggt 25-15.

Önnur hrina er strax talsvert jafnari en sú fyrsta og eru gestirnir alltaf skrefi á undan með klókum og þolinmóðum sóknarleik. Áfram hélt leikurinn að vera jafn en undir lokin ná gestirnir tveimur stigum í röð og komast í stöðuna 20-23 og tekur þá KA leikhlé. Það virkaði heldur betur þar sem KA nær að jafna leikinn 24-24. KA fullkomnar síðan endurkomuna og vinna hrinuna 26-24.

Bæði lið gera breytingar á liði sínu og leyfðu ungum og efnilegum leikmönnum að spreyta sig. Gestirnir voru greinilega mjög sárir eftir tapið í annari hrinu því þeir byrjuðu af gríðarlegum krafti í þriðju hrinu og komust í 1-9. Þeir héldu áfram á mikilli siglingu þangað til KA svaraði aðeins fyrir sig og skoruðu 6 stig í röð og minnkuðu munin í þrjú stig. KA menn komu sér því aftur inn í hrinuna en Vestramenn náðu þó alltaf að halda tveggja til þriggja stiga forystu. KA heldur áfram að þjarma að gestunum og er Ágúst Leo þar fremstur í flokki. Vestri tóku leikhlé í stöðunni 22-24 Vestra í vil. Stanislaw ákveður síðan að nú sé komið nóg og klárar hrinuna fyrir gestina og þeir unnu hana 22-25.

Liðin haldast eins í fjórðu hrinu nema Kristófer fer útaf og inná kemur Jón Andri annar efnilegur uppspilari. Gestirnir koma svipað sterkir inn í fjórðu hrinu líkt og þeir gerðu í fyrstu og tekur KA upp á því að setja Zdravko inn á í staðinn fyrir Jón Andra í stöðunni 9-13 fyrir Vestra. Vestri héldu þó áfram sínu striki og hækkuðu forskotið bara enn meira. Þá ákveður KA að gera fleiri breitingar til þess að finna svör við góðu spili gestanna. Það gegnur þó ekkert til að stopa gestina þar sem þeir sýndu virkilega góðan varnarleik og voru þolinmóðir í sóknarleiknum sem skilaði sínu og unnu þeir hrinuna að lokum 21-25 og náðu þar með að knýja fram oddahrinu.

Bæði lið byrja með sitt vanalega byrjunarlið og greinilegt að hvorugt liðið var búið að játa sig sigraðan. Liðin skiptust á að leiða leikinn en liðin skiptu um vallarhelming voru KA menn búnir að ná upp tveggja stiga forskoti, 8-6. Gestrirnir héldu áfram að reyna að saxa á forskotið en það gekk ekki nógu vel og tóku þeir leikhlé í stöðunni 14-10 til þess að reyna að finna einhverjar lausnir að stoppa KA liðið. Það dugði þó ekki til og kláraði Mateo leikinn með smassi og unnu KA hrinuna 15-11 og þar með leikinn 3-2.

Ekki eru komnar upplýsingar um stigaskor úr leiknum en fréttin verður uppfærð þegar þær fréttir berast.

Við hjá blakfréttum óskum KA innilega til hamingju með titilinn.