Fyrr í dag fór fram leikur HK gegn Vestri á heimavelli HK.
Vestri byrjaði leikinn vel og komu sér strax í 1-5 forystu. Vestri pressuðu vel á heimamenn og áttu þeir erfitt með að halda í við þá. Í stöðunni 13-18 tók þjálfari HK leikhlé sem varð til þess að HK menn náðu að minnka muninn niður í 18-19, ekki dugði það þó til og lokuðu gestirnir hrinunni 20-25.
Önnur hrina byrjaði með sama stíl og sú fyrsta og leiddu gestirnir 1-5. Þjálfari HK tók þá leikhlé og gáfu heimamenn í eftir það og minnkuðu muninn niður í 8-9, eftir það héldu HK menn vel í Vestri og var hrinan ansi jöfn eftir það. Gestirnir voru þó ekki tilbúnir að gefa frá sér hrinuna og kláruðu hana 19-25.
HK menn voru komnir með bakið upp við vegg og voru ekki tilbúnir að gefast upp. Þriðja hrinan byrjaði jöfn og skiptust liðin á að skora upp að stöðunni 8-8. Þá gáfu heimamenn í og stungu Vestra af og komu sér í 14-8 forystu. Leikmaður Vestra var óánægður með dómgæslu og eftir ítrekaðar viðvaranir fékk hann rautt spjald sem endaði með brottvísun út hrinuna. HK menn létu þetta þó ekki taka sig út af laginu og komu sér í 18-11 forystu. Gestirnir settu þá í fimmta gír og náðu að jafna í 19-19. Heimamenn ætluðu sér þó að knýja fram fjórðu hrinu og sigruðu hrinuna 25-23.
Eftir að Vestri hafði tapað þriðju hrinu komu þeir eldheitir inn í fjórðu hrinu, þar sem að þeir voru strax 6-1 yfir. HK menn héldu þó áfram að pressa á gestina sem dugði þó ekki til. Vestri setti í lás og lokuðu hrinunni 17-25 og sigruðu þar með leikinn 1-3.
Þeir Marcin og Antonio voru stigahæðstir hjá Vestra með 11 stig hvor en hjá HK voru Hermann og Markús stigahæðstir með 8 stig hvor.
Næsti leikur hjá HK er þann 21. október á heimavelli þar sem að þeir munu taka á móti Stál-Úlf en Vestri eiga leik þann 20. október þar sem að þeir fara til Húsavíkur og spila á móti Völsungi.