Hafsteinn Már og félagar sem spila fyrir hönd Habo Wolley í Svíþjóð spila afar spennandi átta liða úrslit um sænska meistaratitilinn.
Þriðji leikurinn í seríunni fór fram 22. mars, og staðan var jöfn, 1-1, fyrir leikinn. Leikið var á heimavelli Lunds VK.
Fyrsta hrina var afar jöfn, þar sem liðin skiptust á að skora allt fram að lokamínútum hennar. Lunds VK tóku hins vegar völdin í lokin og tryggðu sér sigur í hrinunni, 25-22.
Önnur hrina fylgdi svipuðu mynstri, en eftir að staðan var 11-11 náði Habo Wolley þriggja stiga forskoti, 11-14. Lunds VK hélt þó í við þá. Í stöðunni 16-18 jók Habo forskotið í 16-21 og kláraði hrinuna 19-25.
Í þriðju hrinu hófu Lunds VK leikinn af krafti og komust í 7-3 forystu. Habo Wolley svaraði með öflugri sókn og jafnaði í 15-15. Lunds VK svöruðu um hæl, tóku fjögur stig gegn einu og leiddu 20-16. Það reyndist dýrmætur munur, og Lunds VK tryggðu sér hrinuna með 25-20 sigri.
Fjórða hrina var jöfn til að byrja með, en Lunds VK náðu að halda nokkurra stiga forskoti mestan hluta hennar. Þeir kláruðu svo leikinn með 25-20 sigri í hrinunni.
Stigahæstur í liði Lunds VK var Smereka Przemyslaw með 23 stig, en Hafsteinn Már leiddi Habo Wolley með glæsilegri frammistöðu og skoraði 21 stig.

Fjórði leikur einvígisins fór fram 24. mars á heimavelli Habo Wolley. Lunds VK leiddu einvígið 2-1, sem þýddi að Habo Wolley stóðu með bakið upp við vegg og þurftu sigur til að knýja fram oddaleik.
Habo Wolley hófu leikinn af krafti og komust í 4-1 forystu. Lunds VK voru þó snöggir að svara og jöfnuðu í 4-4. Hrinan var jöfn fram að stöðunni 20-18, þá setti Habo í gír, tók fimm stig gegn einu og kláraði hrinuna 25-19.
Önnur hrina var spennandi til að byrja með, en í stöðunni 13-13 tók Lunds VK öll völd og skoraði sex stig í röð, komust í 13-19 og héldu síðan forskotinu til loka, 18-25.
Þriðja hrina hófst á svipuðum nótum, en eftir að staðan var 9-9 sneri Habo Wolley upp á leik sinn og náði fimm stiga forskoti, 14-9, sem jókst fljótt í 17-10. Þeir héldu pressunni áfram og sigruðu hrinuna örugglega 25-14.
Fjórða hrina var í höndum Habo Wolley frá byrjun. Þeir tóku strax 7-2 forskot og héldu stjórninni út hrinuna. Með sterkri spilamennsku tryggðu þeir sér 25-17 sigur og jöfnuðu einvígið í 2-2.
Algot Danielsson var stigahæstur í liði Habo Wolley með 18 stig, á meðan Smereka Przemyslaw var stigahæstur fyrir hönd Lunds VK með 15 stig.
Úrslitin ráðast í kvöld, 26. mars kl. 18:00 að íslenskum tíma, þegar liðin mætast í oddaleik á heimavelli Lunds VK. Sigurliðið tryggir sér sæti í undanúrslitum.