Afturelding tók á móti Hamar í áttaliða úrslitum í Kjörísbikar karla að varmá. Hamar byrjaði fyrstu hrinuna gríðarlega vel og komu sér í góða stöðu þegar þeir leiddu 13-5. Heimamenn voru þó hvergi nærri hættir og náðu þeir að vinna sig aftur inn í hrinuna hægt og rólega þar til staðann varð jöfn 20-20. Hamar var með fá svör við sterkum leik heimamanna sem sigruðu hrinuna 25-21.
Önnur hrinan var jöfn framan af þar sem liðinn skiptust á að leiða þangað til Afturelding gaf í og leiddu þegar komið var í hálfa hrinu 15-10. Hamar náði aldrei að vinna upp það forskot sem heimamenn náðu að byggja upp og kláraði Afturelding aðra hrinuna 25-19.
Þriðja hrina var einnig mjög jöfn og stóðu leikar 11-11 þegar Hamar gaf í og leiddu snögglega 16-11. Hamar héldu yfirhöndinni alla hrinuna sem þeir kláruðu sannfærandi 25-17.
Afturelding komu einbeittir inn í fjórðu hrinu og leiddu 15-10. Þrátt fyrir mikla baráttu gestana náðu þeir aldrei að jafna hrinuna sem Afturelding kláraði 25-20 og unnu þar með leikinn 3-1. Afturelding sló þar með ríkjandi Bikar- og Íslandsmeistara úr Kjörísbikarkeppninni og halda Mosfellingar áfram í fjögraliðaúrslit.