Völsungur sótti Aftureldingu að Varmá í Unbrokendeild karla í gær. Afturelding náði snemma yfirhöndinni í fyrstu hrinunni og leiddu þeir 15-8 þegar Völsungur tók sitt fyrsta leikhlé. Gestirnir náðu að vinna sig aftur inn í hrinuna en náðu ekki að ógna Aftureldingu sem kláraði hrinuna 25-21.
Önnur hrina var spennandi framan af þar sem liðinn skiptust á að leiða og var það Völsungur sem leiddi með tveimur stigum í stöðunni 7-9. Þegar Afturelding gerði sér lítið fyrir og skoraði næstu átta stig og leiddu þá heimamenn 15-9. Þrátt fyrir mikla baráttu gestana náðu þeir ekki að jafna leikinn þar sem Afturelding kláraði aðra hrinuna 25-19.
Völsungur byrjuðu þriðju hrinuna af krafti og leiddu snemma í stöðunni 1-7. Afturelding unnu sig þó aftur inn í hrinuna og jöfnuðu þeir loks í stöðunni 9-9. Hrinan var gríðalega spennandi þar sem leikar stóðu enn jafnir í stöðunni 22-22. Við tók æsispennandi lokasprettur sem endaði með tveggja stiga sigri Aftureldingar 25-23.
Eftir leikinn situr Afturelding í fjórða sæti Unbrokendeildarinnar með 31 stig á meðan Völsungur situr í því sjötta með 18 stig.