Elísabet er að spila í Herceg Novi sem er í efstu deild í Svartfjallalandi. Mikið hefur verið um að vera síðustu 4 mánuði. Ævintýri Elísabetar byrjaði á 1,5 mánaðar æfingaferðalagi um Evrópu og eftir það tók við Champions league, CEV cup og SuperLiga sem er deildin í Svartfjallandi. Fyrir þá sem ekki vita þá er Champions league sterkasta félagsliðakeppni í Evrópu og CEV cup er næst sterkasta árlega félagskeppnin í Evrópu. Í Champions league fékk lið Elísubetar erfiða andstæðinga, Lodz, sem er í efstu deild í Póllandi. Fyrsti leikur var spilaður á heimavelli og tapaðist hann 3-0 (22-25, 25-27 og 18-25), annar leikur var spilaður í Lodz í Póllandi og tapaðist hann einnig 3-0. Þar með var Herceg Novi úr keppni. Við tók erfiður mánuður til að undirbúa liðið enn betur fyrir CEV cup, þar voru andstæðingarnir ennþá erfiðari, Türk Hava Yollari, þær spila í efstu deild í Tyrklandi sem er ein sterkasta deild í heimi. Bæði heimaleikurinn og útileikurinn tapaðist 3-0.
Deildin í Svartfjallandi hefur farið vel af stað fyrir Herceg Novi. Síðustu helgi spilaði Herceg Novi á móti Kotor. Elísabet byrjaði inná og spilaði allan leikinn. Leikurinn endaði 3-0 (25-9, 25-11 og 25-11) og var Elísabet valin MVP með 14 stig í annað skiptið á þessu tímabili. Næst á dagskrá er heimaleikur á föstudaginn 29.nóv og mánudaginn í næstu viku mun liðið fara til Serbíu til að spila æfingaleiki.