Innlendar fréttir

Grannaslagur fyrir norðan

Grannaslagur átti sér stað á Akureyri í gærkvöldi þegar KA tók á móti Völsungi í unbrokendeild karla í blaki. KA menn byrjuðu betur í fyrstu hrinu og ná ágætri forystu. Völsungar voru ákvenir í að hleypa KA mönnum ekki langt framúr sér og voru aðeins einu stigi frá því að jafna leikinn á ný í stöðunni 13 – 12 heimamönnum í vil. KA menn sigla síðan rólega framúr á endanum og vinna hrinuna 25 – 19. 

Bæði liðin mæta ákveðin til leiks í annarri hrinu. Mikil barátta beggja vegna og var jafnt framundir miðja hrinu. KA menn taka þá góða skorpu og Völsungar taka leikhlé í stöðunni 15 – 12 fyrir KA. Það dugði þó ekki til að slökkva í heimamönnum og endar hrinan síðan með sigri heimamanna 25 – 20. 

Í þriðju hrinu byrja gestirnir töluvert betur og komast yfir 6 – 12. Þá taka heimamenn við sér og Völsungarnir taka leikhlé í stöðunni 14 – 15 þeim í vil. Heilmikil barátta var hjá báðum liðum og mikil spenna í seinnihluta hrinunnar. Hrinan hélst jöfn í 19 – 19 og 20 – 20. Hvorugt liðið var til í að gefa hrinuna og sýndu þau flott blak þar sem gestirnir vörðust virkilega vel og Hávarnir KA voru til fyrirmyndar. Heimamenn höfðu betur á endanum og unnu hrinuna 25 – 23 og unnu þar með leikinn 3-0.

Ekki er vitað stigaskorið í leiknum en það kemur inn síðar.

Næsti leikur KA manna leikur í KA heimilinu þar sem þeir fá Þrótt Fjarðabyggð í heimsókn 15. nóvember en Völsungsmenn taka á móti Vestra 22. nóvember.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *