Innlendar fréttir

HK með 3 stig í kvöld gegn Aftureldingu

HK fékk Aftureldingu í heimsókn í Unbrokendeild kvenna fyrr í kvöld. Heimakonur byrjuðu fyrstu hrinu af krafti þar sem þær leiddu leikinn fyrri hluta hrinunnar. Afturelding náðu að jafna úr stöðunni 20-16 í 20-20. Eftir það skiptust liðin á að fá stig þar til HK sigraði hrinuna 25-23.

HK konur komu sterkar inn í aðra hrinu þar sem þær fengu 9 stig í röð og voru í þægilegri stöðu 12-6. Afturelding hætti þó ekki að spila og náðu að jafna í 17-17. Þá settu hins vegar HK í næsta gír og sigruðu hrinuna 25-20.

Þriðja hrina var mjög jöfn en Afturelding hafði þó allan tíman örlítið forskot. HK náði að jafna í stöðuna 20-20. Eftir það skiptust liðin á að fá stig alla leið í upphækkun en eftir mikla spennu var það þó HK sem hafði betur 28-26 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæst í liði HK var Helena Einarsdóttir með 15 stig og í liði Aftureldingu var Tinna Rut Þórarinsdóttir með 17 stig.

Eftir leikinn hreyfast liðin ekki í töflunni, Afturelding er í 3. sæti með 32 stig og HK í 4. sæti með 24 stig. Um helgina fer HK norður þar sem þær mæta Völsungi laugardaginn 22. febrúar en Afturelding á ekki leik í Unbrokendeildinni fyrr en eftir bikarhelgina þar sem þær eru komnar í undanúrslitin.