HK mætti Álftanesi í seinni leik kvöldsins í Kjörísbikar kvenna. Mikil spenna var í fyrri leik kvöldsins þar sem KA hafði betur með 3-1 sigri. Því var ljóst að HK eða Álftanes myndu mæta KA í úrslitum.
HK hafði yfirhöndina meiri hluta fyrstu hrinu en Álftanes gafst þó ekki upp og í stöðunni 20-18 fyrir HK leit út fyrir að Álftanes hafi komið sér inn í leikinn en þá setti HK allt í lás og sigraði hrinuna 25-18. Álftanes byrjaði af krafti í annarri hrinu þrátt fyrir að hafa misst Nejru út í fyrsta stigi vegna meiðsla og hrinan var mjög jöfn og spennandi til að byrja með. Katrín Sara og Martyna gerðu vel í hrinunni fyrir Álftanes en það dugði ekki til fyrir þær þar sem HK voru sannfærandi í seinni hluta hrinunnar og sigruðu hana 25-19.
Nejra var tilbúin í næstu hrinu og var aftur komin í byrjunarlið Álftaness. Hrinan var nokkuð jöfn til að byrja með og margar langar skorpur. Álftanes voru mjög sterkar og höfðu yfirhöndina meiri hluta hrinunnar. HK náði þó að jafna í 19-19 og eftir það stigu HK stelpur upp og gáfu ekkert eftir. Helena, Líney og Þórdís gerðu vel í sókninni fyrir HK og lítið sem Álftanes gat gert við flottum sóknarstigum. Að lokum var það Guðný Rún sem blokkaði Nicole Hönnuh og þar fengu HK tuttugasta og fimmta stigið sitt og unnu því leikinn nokkuð sannfærandi 3-0.
Því er ljóst að HK mætir KA í úrlsitum Kjörísbikarsins 2025 á morgun. Leikurinn er eftir úrslitaleik karlanna klukkan 15:30 en það getur breyst ef karlaleikurinn verður langur, báðir leikir verða í beinni á Rúv. HK mætti KA seinustu helgi þar sem KA hafði betur í oddahrinu og því getum við búist við hörkuleik í úrslitum.