KA fékk HK í heimsókn í fyrsta leiknum í undanúrslitum Úrslitakeppninnar. HK vantaði tvo lykilleikmenn í lið sitt, þær Helenu Einarsdóttir og Savannah Marshall.
KA byrjaði fyrstu hrinu af krafti og héldu yfirhöndinni allan tímann. Þær voru komnar í 23-9 þegar HK loksins reif sig í gang og náðu að minnka muninn í 24-13 en þá tók KA næsta stig og komust í 1-0. Önnur hrina var mjög svipuð og sú fyrsta þar sem þær voru komnar í 21-10 þegar HK loksins reif sig í gang. Þá skiptust liðin á að fá stig fyrir stig en það var of seint fyrir HK og KA sigraði hrinuna 25-14.
HK byrjaði allt öðruvísi í þriðju hrinu en í fyrstu tveimur, hún var jöfn og spennandi þar til HK komst í 18-23 og leit allt út fyrir að HK myndi minnka muninn í 1-2. Þá setti KA hins vegar allt í lás og komst yfir í 24-23. Í lokin var leikurinn spennandi en að lokum sigraði KA hrinuna 27-25 og þar með leikinn 3-0 og leiðir því 1-0 í undanúrslitunum. KA var með mun sterkari uppgjafir í leiknum en HK en þær voru með 9 ása en HK var með engan.
Stigahæst í liði KA var Julia Bonet með 20 stig og hjá HK var það Líney Inga með 10 stig. Næsti leikur liðanna er á laugardaginn í Digranesi kl 15:00.