Fyrsti leikurinn á þessu tímabili 24/25 fór fram í dag þar sem ríkjandi Íslandsmeistarar kvenna, KA sótti ríkjandi Bikarmeistara, Aftureldingu að Varmá þar sem keppt var um Meistara Meistaranna.
Leikurinn var heldur kaflaskiptur þar sem bæði lið áttu góða spretti og skiptust þau sífelt á að stjórna flæði leiksins. KA byrjaði betur í fyrstu hrinu og náðu snemma góðum tökum á henni þegar Afturelding tók strax leikhlé í stöðunni 6-1 fyrir KA. Það dugði ekki til þar sem KA konur voru gríðalega einbeittar og leiddu áfram í stöðunni 15-4. Afturelding átti fá svör við sterku liði KA sem kláraði fyrstu hrinu sannfærandi 25-9.
Það var allt annað að sjá til lið Aftureldingar í annari hrinu og leiddu 15-12 þegar KA tók leikhlé. Heimakonur gáfu ekki upp forustuna þrátt fyrir að KA átti góða spretti inn á milli. Hrinan endaði 25-20 fyrir Aftureldingu þar sem Valdís sótti seinasta stigið beint úr uppgjöf.
Afturelding byrjaði þriðju hrinuna af krafti og komust í góða forustu þegar staðan var 12-3. KA náði þó að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn en Afturelding leiddi þó enn í stöðunni 19-14. Gestirnir klóruðu í bakkan á lokasprettinum en heimakonur kláruðu þriðju hrinuna með blokk 25-18.
KA mættu í fjórðu hrinuna og tóku gjörsamlega öll völd á henni. Þær byrjuðu á að ná í fyrstu fjögur stig hrinunar og tók Afturelding þá leikhlé sem skilaði litlum sem engum árangri þar sem Ka hélt áfram að raða inn stigum þar til staðan var 17-1. Heimakonur sáu aldrei til sólar í fjórðu hrinu og skiluðu góðar uppgjafir KA konum sigri 25-9 og var því orðið jafnt 2-2 í hrinum.
KA konur byrjuðu betur í oddahrinuni og leiddu 8-3 þegar liðin skiptu um vallarhelming. Afturelding náði á smá flug og skoruðu nokkur stig í röð svo KA tók leikhlé í stöðunni 11-7. Eftir það gáfu KA konur ekkert eftir og kláruðu loka hrinuna 15-8 og unnu þar með leikinn 3-2 og eru því Meistarar Meistarana 2024.