Innlendar fréttir

KA nær að knýja fram odda leik

KA og Hamar mættust norður á Akureyri í öðrum leik liðanna í umspili umsæti í úrslitum fyrir Íslandsmeistaratitilinn. Hamar hafði betur í fyrri viðureign liðanna og gat því tryggt sér sæti í úrslitum með sigri.

Heimamenn byrjuðu fyrstu hrinu af krafti og voru alltaf skrefi á undan gestunum og komst mest í 17-12 forystu. Hamarsmenn tóku þá leikhlé til að finna einhverjar lausnir til að saxa á forskotið sem var búið að myndast. Gestirnir ná þá að minnka muninn í 19-17 þegar KA menn taka leikhlé. Hamarsmenn ná að jafna í stöðunni 21-21 með frábærri og vel stiltri blokk og taka KA þá sitt annað leikhlé í stöðunni 21-22. Loka kafli hrinunnar verður gríðarlega spennandi og komast KA menn yfir 24-23 og taka þá gestirnir sitt annað leikhlé. Það dugði ekki til og unnu heimamenn fyrstu hrinuna 25-23.

Önnur hrina byrjar mjög spennandi og aldrei meira en eitt stig sem skildi að liðin og var það gegnum gangandi út alla hrinuna. KA menn taka leikhlé í stöðunni 17-15 Hamar í vil og ná þeir að nýta það nokkuð vel þar sem þeir ná að jafna leikinn aftur í 21-21. Liðin skiptast á að leiða hrinuna og komast KA menn yfir í stöðunni 22-21 en þá setja Hamarsmenn fótinn niður og taka forystuna 23-22 og ná svo að klára hrinuna á endanum 25-23 og staðan því orðin jöfn 1-1.

Gestirnir byrja þriðju hrinu betur, en KA menn eru aldrei lagt á undan. Þeir ná svo að jafna leikinn í stöðunni 14-14 en þá setja gestirnir bara í næsta gír og spila virkilega góða hávörn og varnarleik. KA tekur leikhlé í stöunni 21-17 Hamar í vil en það dugði ekki til og unnu gestirnir hrinuna sannfærandi 25-19. KA menn voru því komnir með bakið upp við vegg og ekkert annað í stöðunni en að taka næstu hrinu til þess að halda leiknum á lífi.

Í fjórðu hrinu úr stöðunni 6-6 taka heimamenn aðeins fram úr gestunum og eru alla hrinuna alltaf einu skrefi á undan. Hamar tekur sitt fyrsta leikhlé í stöunni 19-16 KA í vil en það dugði ekki mikið til og tóku þeir sitt annað leikhlé í stöðunni 23-20 fyrir KA. KA menn gáfu þó ekkert eftir og unnu hrinuna 25-20 og náðu þar með að knýja fram oddahrinu.

Hamarsmenn byrja oddahrinuna örlítið betur og leiða þeir hrinuna 8-6 þegar liðin skipta um vallarhelming. Gestirnir eru alltaf skrefi á undan heimamönnum í hrinunni og var draumurinn um að knýja fram oddaleik í einvíginu farin að fjara hægt og rólega út þegar KA menn ákveða að taka leikhlé í stöðunni 13-10 Hamar í vil. Þeir ná þá að jafna leikinn í fyrsta skiptið í hrinunni í stöðunni 13-13. Eftir það verður hrinan gríðarlega spennandi og fer hrinan í upphækkun og ljóst að hvorugt liðið var tilbúið að gefa upp sigurinn. að lokum höfðu KA menn betur og vinna hrinuna hvorki meira né minna en 22-20 og vinna þar með leikinn 3-2. Með þessum sigri ná KA menn að knýja fram odda leik í einvíginu og verður því úrslitaleikur í Hveragerði um sæti í úrslitum næstkomandi föstudag.

Stigahæsti leikmaður KA var Miguel Mateo með 25 og þar næst Oscar Fernánde með 21 stig. Stigahæstur í liði gestanna var Tomek Leik með 21 og þar á eftir var Rafal Berwald með 17 stig.