Hamar tók á móti KA í Unbrokendeild karla í Hveragerði í gær. Gestirnir frá Akureyri byrjuðu fyrstu hrinuna vel og náðu að byggja sér upp gott forskot og leiddu 8-15. Hamar náði sér aldrei á strik í hrinunni á meðan KA héldu einbeittir út hrinuna og kláruðu hrinuna sannfærandi 15-25.
KA byrjaði aðra hrinuna einnig vel og náðu strax yfirhöndinni. KA leiddu með sjö stigum í stöðunni 11-19. Hamarsmenn byrjuðu þá að gefa í og unnu niður forskotið en þrátt fyrir mikla baráttu heimamanna náðu þeir aldrei að ógna sigri KA sem kláraði hrinuna 20-25.
Aftur voru það gestirnir frá Akureyri sem byrjuðu betur og leiddu 6-13. Hamar náði að vinna sig aftur inn í hrinuna en KA héldu einbeittir út hrinuna sem þeir kláruðu örugglega 17-25, og þar með leikinn 0-3. Eftir leikinn situr KA í fyrsta sæti Unbrokendeildarinnar með 45 stig á meðan Hamar verður að láta þriðja sætið duga með 39 stig.