Völsungur fékk KA í heimsókn bæði kvenna og karla megin í UNBROKENdeildinni
Það var gríðarleg spenna í gærkvöldi á Húsavík en karlarnir byrjuðu kvöldið á flottum leik sem endaði 3-0 fyrir KA
Völsungsmenn mættu mjög gíraðir í leikinn og ætluðu sér að stríða núverandi Íslandsmeisturum. Þeir leiddu í upphafi hrinunnar og komust í 7-2. KA menn náðu svo að saksa á forskotið og jöfnuðu í 11-11 en þá fór Gísli Marteinn í uppgjöf og kom KA mönnum í 18-11. KA vann svo hrinuna 25-16.
KA menn byrjuðu aðra hrinuna virkilega sterkt og komst í 9-0. Völsungar minnkuðu muninn jafnt og þétt en forskotið var of mikið og vann KA hrinuna 25-22
Þriðja hrina var jöfn og spennandi þar sem Völsungar leiddu alla hrinuna en aldrei munaði þó meira en tveimur stigum. KA menn komust fyrst yfir í stöðunni 23-22 og voru sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 26-24.
Ekki er vitað stigaskorið úr leiknum
Svo var komið að konunum og byrjuðu Völsungskonur betur og voru yfir í stöðunni 13-9. Þjálfari KA tók þá leikhlé og eftir það byrjuðu KA konur að spila betur og var hrinan nokkuð jöfn. Völsungur var þó með yfirhöndina allan tímannn og sigraði hrinuna 25-22.
KA konur byrjuðu aðra hrinu af miklum krafti og komust í 11-5. Völsungskonur komust inní leikinn um miðja hrinu og komust yfir í 18-17. En KA voru ekki á því að láta hrinuna af hendi og komust í 20-18 og unnu svo hrinuna 25-23 og staðan því orðin 1-1 í hrinum.
Þriðja hrina var gríðarlega spennandi með löngum og flottum rallýium en KA konur virtust þó vera með þetta í höndum sér þegar þær komust í 7 stiga forskot í 18-11 og 19-12. Með gríðarlegri baráttu náðu Völsungskonur að komast inní leikinn og jöfnuðu í 20-20 og unnu hrinuna 25-23.
KA konur voru komnar með bakið upp við vegg en þær gáfu ekkert eftir og nýttu alla sína krafta í 4 hrinu og virtist allt virka hjá þeim og á sama tíma lítið sem gekk upp hjá Völsungi. KA vann hrinuna nokkuð öruggt 25-15 og náði að knýja fram oddahrinu.
Líkt og hinar hrinunar var jafnt mest allan tímann. Völsungur byrjaði betur og var yfir þegar skipt var um vallarhelming en KA gaf þá í og náði að jafna leikinn og var yfir 14-13. Það dugði þó ekki til og Völsungur vann hrinuna 16-14 og þar með leikinn 3-2.