Í kvöld mættust Odense volleyball og Gentofte volley í þriðja sinn á 6 dögum. Fyrir leikinn var 1-1 í undanúrslitaeinvíginu og því mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið. Það var mikill hiti í leikmönnum enda mikið í húfi.
Fyrsta hrina var jöfn alveg fram að 16-16 en þá fór uppspilari Odense volleyball í uppgjöf og lokuðu þeir hrinunni 25-16. Önnur hrina fór vel af stað hjá Odense volley, en um miðja hrinu spýttu Gentofte í lófana og komust í fimm stiga forskot (14-19). Gentofte lokuðu svo hrinunni 20-25.
Í Þriðju hrinu byrjuðu Gentofte betur og komust í 3-0. Odense Volleyball voru þó ekki lengi að jafna og tóku mjög góða syrpu og komu sér í góða stöðu (10-5). Þjálfari Gentofte tekur þá leikhlé og eftir leikhléið fékk Gentofte þrjú stig í röð. Þjálfari Odense volleyball tekur því næst leikhlé í stöðunni (10-8), þeir ná sér á strik eftir leikhléið og ná að halda forskoti út hrinuna og loka svo hrinunni 25-23.
Í fjórðu hrinu sást að Gentofte volley voru með bakið upp við vegg. Þeir byrja hrinuna mjög vel og ná 7 stiga forskoti (3-10). Odense volleyball tekur leikhlé í stöðunni 3-10 en lítið gengur upp eftir leikhléið. Í stöðunni 5-14 fyrir Gentofte byrjar þjálfari Odense volleyball hægt og rólega að skipta lykilleikmönnum útaf til að hafa þá tilbúna fyrir oddahrinuna. Gentofte volleyball vinna hrinuna örugglega 14-25.
Í fimmtu hrinu voru bæði lið með bakið upp við vegg og sást vel að spenna var i leikmönnum. Odense volleyball mæta ákveðnari í fimmtu hrinu og koma sér í þriggja stiga forskot (3-0), en þá tekur þjálfari Gentofte leikhlé og kemur Gentofte sér i 4-4. Liðin skipta um vallar helming í stöðunni 8-7 fyrir Odense volleyball. Odene volleyball ná að halda forskoti út hrinuna og loka leiknum 15-9.
Sigurinn í kvöld var mjög mikilvægur og kemur Odense volleyball í þægilega stöðu. Þeir eru með yfirhöndina í undanúrslita einvíginu og sigur í næsta eða þar næsta leik kemur þeim í úrslit. Liðin mætast aftur á fimmtudaginn 28.mars á heimavelli Odense Volleyball.
Taka má fram að Ævarr, Galdur og Þórarinn komu við sögu í leiknum og stóðu sig vel!