Laugardaginn 29. mars tryggði Odense Volleyball sér sæti í úrslitum um danska meistaratitilinn, en meðal leikmanna liðsins eru Ævarr Freyr og Galdur Máni.
Odense mætti ASV Elite í undanúrslitum, þar sem fyrsti leikur seríunnar fór fram á heimavelli ASV Elite þann 23. mars. Odense hóf leikinn af krafti, náði snemma forystu og leiddi 6-12 og síðar 16-7. Liðið hélt yfirhöndinni út alla hrinuna og innsiglaði öruggan sigur, 14-25.
ASV Elite komu mun sterkari til leiks í annarri hrinu, sem reyndist afar jöfn. Odense hafði þó betur í lok hrinunnar, þar sem Galdur Máni lokaði hrinunni með hávörn, 24-26.
Þriðja hrina fylgdi sömu þróun, með jöfnu tafli framan af. Undir lokin tók Odense öll völd og komst í vænlega stöðu, 18-24. ASV Elite neituðu þó að gefast upp, minnkuðu muninn í 23-24 og settu pressu á Odense. Þá svöruðu gestirnir ákveðið og kláruðu hrinuna 23-25, sem tryggði þeim 1-0 forystu í einvíginu.
Stigahæstur í liði Odense Volleyball var Sigurd Varming með 15 stig.

Annar leikur einvígisins fór fram á heimavelli Odense Volleyball þann 25. mars.
Heimamenn hófu leikinn af krafti og náðu snemma 12-7 forystu. ASV Elite héldu í við þá, en með öflugri sókn og sterkri hávörn kláruðu Odense fyrstu hrinuna örugglega, 25-19.
Önnur hrina var jöfn framan af, en Odense hélt alltaf örlitlu forskoti. Undir lok hrinunnar settu þeir í gír og byggðu upp 22-15 forystu. Að lokum innsigluðu þeir sigurinn, 25-19.
Svipað var uppi á teningnum í þriðju hrinu, þar sem leikurinn var jafn en Odense ávallt með yfirhöndina. Odense Volleyball lokaði hrinunni 25-19 og tryggði sér öruggan 3-0 sigur í leiknum.
Leikmaður leiksins var Marius Stenmann.

Þriðji leikur undanúrslitanna fór fram á heimavelli ASV Elite laugardaginn 29. mars. Odense Volleyball leiddu einvígið 2-0, og ASV Elite stóðu með bakið upp við vegg og þurftu sigur til að knýja fram fjórða leik.
Fyrsta hrina var hnífjöfn, þar sem liðin skiptust á að skora. Undir lokin sýndu Odense styrk sinn og innsigluðu sigur í hrinunni, 21-25.
Önnur hrina fylgdi svipuðu mynstri, liðin voru jafnir andstæðingar og sóknir gengu á víxl allan tímann. Eftir æsispennandi lokamínútur höfðu Odense Volleyball betur og lokuðu hrinunni í upphækkun, 26-28.
Þriðja hrina var ekki ósvipuð þeim fyrri þar sem að liðin voru jöfn og skoruðu til skiptis. Odense gáfu hins vegar í undir lokin og kláruðu hrinuna 20-25, sem tryggði þeim 3-0 sigur í leiknum.
Sigurd Varming var stigahæstur í liði Odense Volleyball með 25 stig.
Með þessum úrslitum fara Odense Volleyball örugglega áfram í úrslit eftir þrjá 3-0 sigra í einvíginu. Þar munu þeir mæta Gentofte í baráttunni um danska meistaratitilinn.
Ævarr Freyr og Galdur Máni voru lykilleikmenn í undanúrslitunum, en þeir sýndu mikla orku á vellinum og stóðu sig frábærlega í sínum stöðum.
Við óskum Galdri, Ævarri og félögum innilega til hamingju með sætið í úrslitum og óskum þeim góðs gengis!