Spænska liðið Sant Joan þar sem að þær Arna Sólrún og Jóna Margrét spila mættu liði Covirán CDU Atarfe á útivelli laugardaginn 12. október.
Leikurinn var mjög spennandi til að byrja með og skiptust liðin mikið á að fá stig. Að lokum voru það Sant Joan sem höfðu betur og unnu fyrstu hrinuna 25-23.
Atarfe byrjaði aðra hrinu mun betur en Sant Joan og voru með þæginlega forystu 14-5. Sant Joan gáfust þó ekki upp og náðu sér aðeins upp á strik en það dugði þó ekki til og töpuðu hrinunni 25-18 og staðan því orðin 1-1.
Þriðja hrina var mjög jöfn og bæði lið skiptust á að vera með forystuna þar til í lokin þegar Atarfe var í þæginlegri stöðu 24-21. Sant Joan setti þá í fluggír og náði að komast yfir í 25-24. Mikil spenna var í lokin en Sant Joan hafði betur og vann hrinuna 28-26.
Fjórða hrina var mjög jöfn og skemmtileg en að lokum unnu Atarfe hana 25-22 og því leikurinn á leiðinni í oddahrinu. Hrinan byrjaði jöfn en í stöðunni 5-5 gáfu Atarfe vel í og hættu ekki fyrr en þær unnu hrinuna 15-9 og þar með leikinn 3-2.
Deildin hjá Sant Joan hefur því ekki byrjað mjög vel en það er nóg eftir. Næsti leikur hjá þeim er sunnudaginn 20. október þar sem þær fá Santa Cruz Cuesta Piedra í heimsókn sem koma alla leiðina frá Tenerife. Þær spiluðu í efstu deild á seinasta tímabili svo búast má við erfiðum leik fyrir stelpurnar í Sant Joan. Leikurinn er sýndur á Youtube síðu Sant Joan kl 12:00 (10:00 á íslenskum tíma) á sunnudaginn fyrir áhugasama: https://www.youtube.com/@cvsantjoan5295/featured