Matthildur Einarsdóttir og lið hennar Slavia tók á móti Trnava í Slóvakísku Úrvalsdeild í dag. Heimakonur byrjuðu af krafti og leiddu snemma 5-1 þegar Trnava tók leikhlé. Gestirnir komu sér af stað með sterkri uppgjafapressu en Slavia gaf lítið eftir og leiddi enn í stöðunni 17-12. Slavia héltu einbeittar út hrinuna sem þær kláruðu 25-16.
Gestirnir í Trnava byrjuðu aðra hrinu betur og leiddu framan af en Slavia náðu að jafna hrinuna í stöðunni 12-12. Gestirnir tóku leikhlé þegar Slavia komst í 16-13. Kláruðu heimakonur aðra hrinu 25-18.
Þriðja hrina var mjög jöfn í byrjun þar sem liðinn skiptust á að leiða en gestirnir tóku leikhlé þegar Slavia komst í tveggja stiga forustu í stöðunni 11-9. Gestirnir náðu þó að vinna upp þessi tvö stig og stóðu leikar jafnir í stöðunni 20-20. Trnava tók mikilvægt leikhlé í stöðunni 23-21 fyrir Slavia þar sem gestirnir náðu að jafna hrinuna aftur í 24-24 og kreistu þar með fram upphækkun. Við tók spennandi lokasprettur sem endaði með 28-26 sigri Slavia, sem kláraði þar með þriðja leikinn í röð 3-0.
Næsti leikur Matthildar og liðsfélaga hennar í Slavia er næstkomandi laugardag 19.10 gegn Presov.