Erlendar fréttir

Tap hjá Habo Wolley í fyrsta leik í undanúrslitum

Habo Wolley, þar sem Hafsteinn Már spilar, mætir Floby VK í undanúrslitum um sænska meistaratitilinn. Fyrsti leikurinn fór fram á heimavelli Floby VK þann 29. mars.

Fyrsta hrinan var jöfn í upphafi, þar sem liðin skiptust á að skora. Í stöðunni 15-16 tóku Floby VK við sér, náðu fjögurra stiga forystu, 20-16, og héldu áfram að setja pressu á Habo Wolley. Þeir kláruðu hrinuna 25-19.

Önnur hrina þróaðist á svipaðan hátt, með jafnri byrjun þar sem liðin héldu í við hvort annað. Undir lok hrinunnar sýndi Habo Wolley styrk sinn, sigraði 20-25 og jafnaði leikinn í 1-1.

Floby VK voru ekki ánægðir með úrslitin úr annarri hrinunni og komu af krafti inn í þá þriðju. Þeir náðu fljótt góðri forystu, 14-10 og síðar 21-11, og unnu hrinuna örugglega 25-15.

Svipað var uppi á teningnum í fjórðu hrinu, þar sem Floby VK tóku strax völdin. Þeir leiddu 12-8 og síðar 18-12 áður en þeir innsigluðu sigurinn með 25-19, og unnu leikinn 3-1.

Serigne Fall og Viktor Lindberg voru stigahæstir hjá Floby VK með 17 stig hvor, á meðan Hugo Morency var atkvæðamestur hjá Habo Wolley með 14 stig.

Næsti leikur fer fram 1. apríl á heimavelli Habo Wolley kl. 17:00 að íslenskum tíma.