Fréttir - Innlendar fréttir

Þróttara slagur fyrir austan

Þróttur Fjarðabyggð tók á móti Þrótti Reykjavík í Unbrokendeild karla. Fyrsta hrinan var mjög spennandi þar sem liðin skiptust á að leiða. Leikar stóðu jafnir í stöðunni 15-15. Þróttur Reykjavík gaf þá í og leiddu restina af hrinunni sem þeir kláruðu 22-25.

Önnur hrina var jöfn framan af þangað til gestirnir náðu yfirhöndinni og leiddu 12-17. Heimamenn gáfust þó ekki upp og jöfnuðu hrinuna í stöðunni 20-20. Þróttur Reykjavík gaf þá aftur í og kláruðu hrinuna líkt og þá fyrstu 22-25.

Þróttur Reykjavík komu gríðarlega einbeittir inn í þriðju hrinu og byggðu sér tíu stiga forskot í stöðunni 7-17. Heimamenn náðu sér aldrei í gang í hrinunni sem gestirnir kláruðu sannfærandi 16-25. Eftir leikinn situr Þróttur Reykjavík í öðru sæti í Unbrokendeildarinnar með 43 stig á meðan Þróttur Fjarðabyggð er í því áttunda með 8 stig.

Stigahæstur í liði Þróttar Fjarðabyggðar var Jose Federico Martin með 9 stig.

Stigahæstur í liði Þróttar Reykjavíkur var Mateusz Klóska með 14 stig.