Laugardaginn 15. Febrúari tóku Vestramenn á móti Hamri í Unbrokendeild karla. Leikurinn byrjaði jafn og skiptust lið á því að skora stig. Í stöðunni 12-12 taka Vestramenn leikhlé og eftir það breytast leikar. Skorar Vestri 8 stig á móti 3 stigum Hamars og komast þá í þægilega stöðu. Gestirnir gefast þó ekki upp en dugir það ekki til og vinnur Vestri fyrstu hrinu 25-21.
Gestirnir svara þó fyrir sig í annari hrinu og taka snemma þægilegt forskot. Þegar heimamenn taka sitt fyrsta leikhlé standa leikar 6-11 fyrir Hamri. Hefur það lítil áhrif á Hamarsmenn og þegar heimamenn taka sitt seinna leikhlé hefur forskotið aukist í 8-16. Vestramenn ná þó að laga stöðuna aðeins en í lokin vinnur Hamar aðra hrinu 19-25 og því staðan 1-1.
Snúast leikar aftur í þriðju hrinu þar sem heimamenn byrja að krafti og koma sér fljótt í 10-5 með nokkrum ásum sér að vopni. Ekki gefast gestirnir upp því fyrir miðja hrinu standa leikar 14-14. Vestramenn taka þó næstu fjögur stig af fimm mögulegum og tekur þjálfari Hamars leikhlé í stöðunni 18-15. Lítið sem stoppar heimamenn og taka þeir næstu tvö stig og tekur Hamar þá sitt seinna leikhlé. En ekki var aftur snúið og sigla Vestramenn þriðju hrinu heim með 25-20 sigri og því komnir í kjörstöðu.
Í fjórðu hrinu skipta lið með sér stigum og var mest 2 stiga munur. Þegar fyrsta leikhlé hrinunnar er tekið var staðan orðin 22-20 fyrir Vestramönnum. Er þá hiti kominn í leikinn og þegar Vestri skorar sitt 23 stig fær uppspilari Hamars að líta gult spjald og taka þá Hamarsmenn annað leikhlé í 23-20. Eftir það er ekki aftur litið og vinnur Vestri hrinuna 25-22 og þar með leiknum 3-1
3 stig til heimamanna eftir æsispennandi leik.
Einhverjar gangtruflanir virðast vera í ísvél hvergerðinganna, en eftir leikinn sitja Hamarsmenn í 3 sæti með 39 stig, þrem stigum frá toppsæti. Vestramenn eru í 4 sæti með 26 stig, einu stigi á undan Aftureldingu sem eiga leik til góða.
Stigahæðstu leikmenn Vestra voru Adria Capdevila og Sverrir Bjarki báðir með 21 stig
Stigahæstur hjá Hamri var Kristján Valdimarsson með 14 stig
Stigaskor fyrir seinnihluta 4.hrinu vantar vegna tæknivandræða.
Næsti leikur Vestra verður slagur um fjórða sætið í deildinni, á heimavelli Aftureldingar, laugardaginn 22. febrúar. Sama dag fá Hamarsmenn KAmenn í heimsókn.
– Mynd eftir Cardz Aves