Fyrsti heimaleikur karlaliðs HK fór fram í Digranesi í kvöld þar sem þeir fengu Aftureldingu í heimsókn. Til að byrja með var fyrsta hrina jöfn en Afturelding náði þó forskoti í stöðuna 12-16 þegar Massimo Pistoia, þjálfari HK, tók leikhlé. HK náði að minnka muninn en Afturelding hélt þó forskoti meiri hluta hrinunnar þar til HK náði að jafna í stöðuna 23-23. Mikil spenna og flott tilþrif áttu sér stað í lok hrinunnar en Afturelding hafði þó betur og vann hana 28-26.
Afturelding byrjaði aðra hrinu að krafti og gáfu ekkert eftir og sigruðu hrinuna sannfærandi 18-25 og leiddu leikinn 2-0. HK þurfti því að vinna næstu hrinu til þess að eiga möguleika á sigri. Þeir byrjuðu þriðju hrinu mjög vel og héldu forskoti alla hrinuna. HK vann hrinuna 25-22 og minnkaði þar með muninn í 1-2.
Fjórða hrina var hnífjöfn þar til í 10-10, þá gaf Afturelding í og komu sér í góða stöðu 10-17. HK gafst ekki upp en að lokum vann Afturelding hrinuna 19-25 og þar með leikinn 3-1.
Stigahæstur í liði Aftureldingar var Valens Torfi Ingimundarson með 27 stig og á eftir honum var það Jakub Grzegolec með 26 stig. Í liði HK var Tómas Davidsson stigahæstur með 22 stig.
Eftir leik kvöldsins er Afturelding með fullt hús stiga í 2. sæti Unbroken-deildarinnar rétt á eftir Hamri sem hefur spilað 2 leikjum fleiri en Afturelding. HK er með 2 stig í 7. sæti eftir þrjá erfiða leiki. Næsti leikur Aftureldingar er 11. október gegn Vestra í Varmá. HK fer norður um helgina þar sem þeir spila á móti Völsungi á Húsavík.