Ka og Völsungur mættust í úrvalsdeild karla í blaki í KA heimilinu í gærkvöldi. Leikurinn byrjaði af krafti og sást strax í upphafi leiks að bæði lið voru mætt til að spila gæða blak. Fyrsta hrina var mjög jöfn og skiptust liðin á að skora stig, en undir lok hrinunnar stigu heima menn frammúr og unnu hrinuna 25-19.
KA menn byrjuðu aðra hrinuna sterkt og voru með yfirhöndina alla hrinuna, þó náðu gestirnir aðeins að saxa á forskotið en það dugði ekki til og unnu KA menn hrinuna 25-19.
Gestirnir voru því komnir með bakið upp við vegg en svöruðu því með góðri frammistöðu í þriðju hrinu þar sem þeir leiddu allan tíman og vannst sú hrina 19-25.
Leikurinn hélt áfram að vera spennandi og ekki var ljóst hver færi með sigur úr býtum í fjórðu hrinu en undir lok hrinunnar sást að heimamenn ætluðu sér að hirða öll þrjú stigin og unnu hrinuna 25-20 og þar með leikinn 3-1.
Mikil dreifing var á spili KA manna en stigahæstur í þeirra liði var miðjumaðurinn Gísli Marteinn Baldvinsson með 17 stig og þar fast á eftir honurm var Pedro Jose með 13 stig. Í liði gestanna var Trey Weinmeier með 16 stig og þar næst kom Marcel Pospech með 13 stig.