Uncategorised

Hörkuleikir í KA heimilinu um helgina

Afturelding sótti lið KA heim í Unbrokendeild karla og kvenna í blaki um helgina. Karlarnir byrjuðu og var ljóst strax frá upphafi að það stefndi í hörkuleik. Liðin skiptust á hörku stigum og voru jöfn næstum alla hrinuna. Þegar leið undir lok hrinunnar sigu gestirnir örlítið fram út og unnu hana 25-22.

Heimamenn byrjuðu aðra hrinu betur, en gestirnir voru ekki lengi að svara fyrir sig og náðu að jafna stöðuna fljótt um miðja hrinu. Eftir það voru þeir alltaf einu skrefi á undan KA mönnum en undir lok hrinunnar skiptust liðin á að leiða og ekki ljóst fyrr en fram á seinasta stig hvort liðið tæki hrinuna. Á endanum náðu gestirnir að klára hana með minnsta mun 25-23. Staðan var því orðin 2-0 gestunum í vil og heimamenn því komnir með bakið upp við vegg.

KA menn byrjuðu þriðju hrinu vel og náðu mest sex stiga forskoti í stöðunni 16-10. Gestirnir náðu þó heldur betur að saxa á forskotið og náðu að minnka munin í eitt stig í stöðunni 20-19. Mikil spenna var því komin aftur í leikinn og fór hrinan í upphækkun þar sem Afturelding hafði betur og vann 28-26 og þar með leikinn 3-0.

stigahæstir í liði KA voru þeir Miguel Mateo og Gísli Marteinn með 17 stig hvor. Í liði Aftureldingar var það Hafsteinn Már með 18 stig.

Þá var komið að stelpunum að taka við keflinu. KA konur byrjuðu sterkt og unnu fljótt upp góðri forystu í fyrstu hrinu. Þær héldu forystunni út alla hrinuna, þó náði Afturelding aðeins að saxa á forskotið undir lokinn en KA náði að vinna hrinuna á endanum 25-19.

Önnur var tiltölulega jöfn en þó voru Aftureldingar stúlkur alltaf skrefi á undan og náðu þær síðan upp góðri forystu um miðja hrinu en KA konur vor fljótar að svara fyrir sig og jöfnuðu og tóku forystuna í leiknum og komust í 20-17. Þá tók Afturelding heldur betur við sér aftur og gerðu sér lítið fyrir og skoruðu 8 stig í röð og unnu hrinuna 25-20.

Leikurinn hélt áfram að vera spennandi og einkenndist þriðja hrina af góðum sóknum hjá báðum liðum. Allt var í járnum fram á seinustu stig hrinunnar þar sem Afturelding hafði betur í upphækkun, 26-24.

Fjóra hrina byrjaði líkt og hinar, vikilega spennandi og mikill baráttuandi í báðum liðum. Undir lok hrinunnar skriðu heima konur fram úr gestunum og kláruðu hrinuna 25-20 og náðu þar með að knýja fram odda hrinu.

KA konur mættu með krafti í oddahrinuna og komust yfir 7-1. Það setti svolítið tóninn fyrir hrinuna og náði afturelding aldrei að svara almennilega fyrir sig eftir það og vann KA 15-10 og þar með leikinn 3-2.

Ekki er vitað stigaskor leikmanna úr leiknum en fréttin verður uppfærð þegar þær fréttir berast.