Uncategorised

Vestri-Hamar

Um helgina fengu Vestri Hamar í heimsókn á Ísafjörð. Í fyrstu hrinu náðu Hamarsmenn fljótt upp forystu en Vestri náðu að saxa á forskotið af og til en Hamar voru þó alltaf skrefi á undan út hrinuna og unnu hana 25-17.

Önnur hrina byrjaði svipað og sú fyrsta þar sem Hamarsmenn náðu upp fínni forystu en um miðja hrinu náðu Vestri að jafna í stöðuna 15-15. Eftir það var hrinan virkilega spennandi og komust Vestri yfir 19-17 þegar Hamar tók leikhlé. Leikurinn hélt áfram að vera hníf jafn með flottum skorpum þar sem Hamar hafði betur á endanum og vann hrinuna með minnsta mun 25-23.

Líkt og fyrstu tveimur hrinunum náðu Hamarsmenn upp góðu forskoti í þeirri þriðju þar sem þeir komust í stöðuna 16-12. En þegar staðan var 23-19 fyrir Hamar tóku Vestri heldur betur við sér og jöfnuðu leikinn í 23-23. Hrinan fór í upphækkun og ljóst að Vestri ætluðu ekki að kasta frá sér sigrinum svo glatt. Hamarsmenn höfðu þó betur á endanum og unnu hrinuna 28-26 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur heimamanna var Marcin Grasza með 21 stig en hjá gestunum var það Tomek Leik með 18 stig.