Fréttir - Innlendar fréttir

KA með sigur fyrir austan

Úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn er hafin og tók Þróttur Fjarðabyggð á móti KA karlamegin í gær. Áður en leikurinn var flautaður í gang voru veitt verðlaun fyrir besta díó deildarinnar en þau hlaut Þróttarinn Raul Garcia Asensio.

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og nældu sér í tvö stig beint úr uppgjöf snemma í fyrstu hrinu. KA héldu áfram að pressa mikið á heimamenn og náðu þeir góðri fjögurra stiga forustu 14-10 en þá gáfu Þróttarar í og jöfnuðu þeir leikinn í stöðunni 15-15 með sterku hávarnarstigi. Heimamenn hættu ekki þar heldur héldu ótrauðir áfram og náðu þriggja stiga forustu 20-17. Gestirnir gáfu þá aftur í og jöfnuðu leikinn í stöðunni 21-21. Lítið gekk upp hjá heimamönnum eftir það og kláraði KA fyrstu hrinuna 25-22.

Önnur hrina var gríðalega jöfn framan af þar sem liðin skiptust á að leiða og stóðu leikar jafnir í stöðunni 14-14. KA menn gáfu þá í og náðu mikilvægri fimm stiga forustu í stöðunni 21-16. Þrátt fyrir mikla baráttu heimamanna reyndist þetta forskot of stórt og kláruðu gestirnir aðra hrinu 25-21.

KA menn komu gríðalega einbeittir inn í þriðju hrinu og náðu snemma góðum tökum á henni. Heimamenn tóku leikhlé í stöðunni 10-4 fyrir KA. Þróttur vaknaði eftir leikhléið og unnu sig hægt og rólega aftur inn í leikinn. Þeir jöfnuðu svo í 17-17 með sterku hávarnarstigi. Loka spretturinn var gríðarlega spennandi og skiptust liðin á stigum allt þar til í stöðunni 22-22 þegar KA fengu 3 stig í röð og unnu þriðju hrinuna 25-22 og þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur í liði Þróttar var Raul Garcia Asensio með 12 stig.

Stigahæstur í liði KA var Miguel Mateo Castrillo með 14 stig.