Erlendar fréttir

Ríkjandi bikar og danskir meistarar með 3-0 sigur á heimavelli.

Odense Volleyball þar sem að þeir Ævarr Freyr Birgisson, Galdur Máni Davíðsson og Þórarinn Örn Jónsson spila fengu Aalborg Volleyball í heimsókn í fyrsta heimaleik tímabilsins.

Odense Volleyball eru ríkjandi bikar og danskir meistarar og eru með öflugt lið aftur þetta tímabilið en Aalborg Volleyball spiluðu í 1. deild á seinasta tímabili og var þetta því fyrsti leikurinn þeirra í efstu deild.

Aalborg Volleyball byrjuðu leikinn vel og stóðu í heimamönnum. Hrinan var jöfn og spennandi en Odense Volleyball létu það ekki stoppa sig og sigruðu hrinuna 26-24. Í annari hrinu voru heimamenn sterkir og sigruðu hrinuna sannfærandi 25-12. Aalborg komu sterkir inn í þriðju hrinu en það dugði ekki til og í 19-19 gáfu Odense volleyball í og lokuðu hrinunni 25-19 og sigruðu þar með leikinn 3-0.

Stigahæstur hjá Odense Volleyball var Siguard Varming með 13 stig og þar á eftir kom Ævarr Freyr með 10 stig.
Galdur er enn puttabrotinn og spilaði því ekki í dag.

Næsti leikur Odense volleyball verður grannaslagur þar sem að þeir taka á móti DHV Odense á heimavelli þann 11/10.