Um helgina voru spilaðir tveir leikir í Unbrokendeildinni í KA heimilinu þar sem karlalið KA tók á móti Stálúlf á laugardeginum og kvennaliðið tók á móti nýkrýndum bikarmeisturunum, Aftureldingu, á sunnudeginum.
Stálúlfur hefur nýverið bætt við sig sterkum leikmönnum inn í leikmannahópinn sinn og var því ljóst að hörku leikur var í vændum. Leikurinn byrjaði spennandi en fljótt náðu KA menn að síga hægt og rólega fram úr gestunum og byggja upp ágætis forskot sem þeir náðu að halda út alla hrinuna þó svo að gestirnir reyndu oft að svara fyrir sig sem gékk ekki alveg upp og unnu KA menn hrinuna 25-22.
Í annari hrinu skiptust liðin á að leiða í byrjun hrinunnar en náðu gestirnir svo að síga fram úr, líkt og KA gerði í fyrstu hrinu. KA náði þó að saxa á forskotið undir lok hrinunar en þá gáfu Stálúlfur bara í og kláruðu hrinuna 21-25.
Þriðja hrina spilaðist svo mjög svipað annarri hrinu þar sem Stálúflur náði fljótt tökum á hrinunni og voru alltaf með yfirhöndina. Þar til undir lok hrinunnar svöruðu KA menn fyrir sig og jöfnuðu í stöðunni 19-19. Stálúlfur hafði þó betur þegar reyndi mest á og kláruðu hrinuna 22-25. Þá voru heimamenn komnir með bakið upp við vegg og ljóst að þeir þurftu að vinna næstu hrinu til að halda leiknum á lífi.
Stálúlfur náði fljótt upp ágætis forskoti og voru alltaf einu skrefi á undan KA mönnum í byrjun hrinunnar. KA náði þó að svara fyrir sig um miðja hrinu þegar þeir jöfnuðu leikinn í stöðunni 15-15. Þá komust KA menn aðeins framúr en Stálúfur voru fljótir að brúa bilið sem var búið að byggjast upp. Leikurinn var gríðalega jafn eftir það og ekki ljóst fyrr en fram að seinasta stigi hver væri að fara að vinna hrinuna. Á endanum höfðu KA menn betur í upphækkun 28-26 og náðu þeir því að knýja fram oddahrinu.
KA menn komu heldur betur sterkir til leiks í oddahrinunni og tóku gjörsamlega alveg yfir hana. Það var aldrei spurning hver væri að fara að vinna hrinuna og tóku KA menn hana 15-5 og unnu þar með leikinn 3-2.
Stigahæstur í liði heimamanna var Miguel Mateo með 36 og þar á eftir var það Oscar Fernánde með 16 stig. Í liði gestanna var það Daniel Fijalka með 28 stig og þar á eftir kom Alexander J. með 17 stig.
Á sunnudeginum tóku KA konur á móti Aftureldingu. Þessi lið áttust við helgina þar á undan þegar keppt var um Bikarmeistaratitilinn og fór fram hörku leikur þrátt fyrir að leikurinn hafi farið 3-0 Aftureldingu í vil. Var því ljóst að spennandi leikur var í vændum. Leikurinn byrjaði af krafti þar sem liðin skiptust á flottum stigum. Þegar leið á hrinuna sigu KA konur fram úr og náðu góðum tökum á hrinunni með vel stiltri blokk og komust þær mest í 9 stiga forystu 18-9. Afturelding áttu fá svör við virkilega góðum sóknar leik KA en náðu þó aðeins að saxa á forskotið undir lokinn en það var ekki nóg og tóku heimakonur hrinuna 25-17.
Í annari hrinu skiptust liðin á að leiða hrinuna. Liðin voru virkilega jöfn alla hrinuna þar til alveg í lokinn þegar KA komst yfir úr stöðunni 16-17, Aftureldingu í vil, í stöðuna 20-17. Þá tekur Afturelding leikhlé en ekki dugði það til að stoppa KA á því skriði sem þær voru komnar á og unnu þær hrinuna að lokum 25-19.
Leikurinn hélt áfram að vera spennandi í upphafi hrinunnar líkt og í fyrri hrinum og var yfirleitt ekki meira en eitt til tvö stig sem skildu að liðin. En um miðja hrinu gáfu KA konur heldur betur í og komast í fjagra stiga forsystu, 12-8. Þá ákveður Afturelding að taka leikhlé. Það dugði ekki til að slökkva í KA konum og héldu þær ótrauðar áfram þar sem varnar leikurinn hélt áfram að vera góður og sóknarnýting þeirra var virkilega góð enda dreifing á spilinu til fyrirmyndar. Afturelding tekur þá sitt annað leikhlé í stöðunni 17-11 KA í vil. KA konur láta það ekkert á sig fá og halda áfram sömu siglingu og vinna hrinuna 25-15 og vinna þar með leikinn 3-0.
Stigahæstar í liði KA voru þær Julia Bonet og Helena Kristín með 13 stig hvor en í liði gestanna var það Kinga Wysokiska með 10 stig og þar á eftir var Tinna Rut með 8.